154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

blóðgjafir.

207. mál
[18:04]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa góðu umræðu og taka undir með hv. fyrirspyrjanda að það er auðvitað mikilvægt að þetta mál fari að hljóta brautargengi og fyllist maður bjartsýni þegar maður heyrir svör hæstv. ráðherra. Mig langar til að nota tækifærið og vekja athygli á öðru máli sem gæti fjölgað blóðgjöfum á Íslandi umtalsvert. Ég sjálfur er haldinn heilkenni sem er svokölluð járnofhleðsla og er því í hópi þeirra sem mega ekki gefa blóð á Íslandi. Hins vegar er ég í þeim hópi sem þarf að fá dregið úr mér blóð a.m.k. tvisvar sinnum á ári, sumir miklu oftar. Þetta er mjög algengt heilkenni á Íslandi, talið að, ef ég man rétt, 5% karlmanna séu haldnir þessu þannig að þar eru nokkur þúsund sem um ræðir og nokkrir lítrar af góðu blóði sem mætti nýta í íslensku heilbrigðiskerfi. Ég er t.d. í O+ sem má gefa öllum (Forseti hringir.) þannig að ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að huga að þessu í leiðinni til að fjölga blóðgjöfum á Íslandi.