154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

bið eftir afplánun.

554. mál
[18:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hæstv. dómsmálaráðherra viðurkennir þá staðreynd málsins að það líður langur tími. Þegar langur tími líður frá því að dómur fellur og þar til afplánun hefst þá erum við í einhverjum tilvikum farin að brjóta gegn mannréttindum sakborninga en við erum auðvitað um leið að brjóta gegn hagsmunum brotaþola, t.d. þegar við erum að tala um kynferðisbrotamál. Ég hjó eftir því að ráðherra nefndi þá skýrslu sem unnin var en á sínum tíma kom fram tillaga hér í þingsal sem var samþykkt og miðaði að því að beita náðunum í auknum mæli vegna stöðunnar í fangelsunum. Ekki vegna þess að náðun eða sýkna eða skilorðsbundinn dómur hefði orðið niðurstaða dómsmála, heldur þurfti að beita náðunum vegna þess að Fangelsismálastofnun var of fjársvelt til að geta tekið fangann inn til afplánunar. Þegar við erum farin að beita náðunum og samfélagsþjónustu í málum sem varða tveggja ára fangelsi þá erum við farin að beita samfélagsþjónustu í kynferðisbrotamálum. Það skiptir máli að hafa þessi tímamörk á hreinu. Ég er mjög hlynnt aukinni notkun á sáttamiðlun, mjög hlynnt aukinni notkun samfélagsþjónustu. En það á þá að vera á einhverjum faglegum forsendum en ekki þannig að það sé verið að hlaða upp í öll önnur úrræði en að viðurkenna niðurstöðu dómstóla bara vegna þess að Fangelsismálastofnun er svo fjársvelt að hún getur ekki tekið menn inn. Samfélagsþjónusta á að byggja á einhverri hugmyndafræði en ekki bara blankheitum Fangelsismálastofnunar.

Að lokum myndi ég vilja biðja hæstv. ráðherra um að svara því, ekki hér og nú en ég á skriflega fyrirspurn um þetta, hvaða fjögur dómsmál það voru, kynferðisbrotamál, þar sem dómararnir fyrndust vegna stöðunnar hjá Fangelsismálastofnun.