154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

breytingar á lögum um mannanöfn.

533. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Árni Skjöld Magnússon) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég heyri að að hún er tiltölulega hlynnt þessu góða framfaramáli eða alla vega gat ég ekki betur skilið það á hennar svari. Í ágætri greinargerð með umræddu frumvarpi segir, með leyfi forseta, „að lögin séu barn síns tíma og hafi að nokkru leyti runnið sitt skeið. Því sé tími kominn á heildarendurskoðun löggjafarinnar.“ Mig langar bara til að taka heils hugar undir það. Ég hef líka tekið eftir því að frumvarp um mannanöfn hefur verið lagt fram á þessu þingi af nokkrum þingmönnum undir forystu hv. 10. þm. Suðurk., Guðbrands Einarsson, og er það vel og vonandi að þingið taki vel í það þó að það komi ekki frá ráðherra.

Það segir í greinargerðinni frá 2020, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum eykur það til muna frelsi einstaklinga til að velja sér og börnum sínum eiginnöfn og kenninöfn og frelsi til að breyta nöfnum verður víðtækara en nú er.“

Þetta er einstaklingsréttarmál. Þetta er mál sem svarar kalli tímans. Vil ég að lokum hvetja þingheim til að koma þessu máli í gegnum þingið og breyta þessum löngu úreltu mannanafnalögum sem gilt hafa á þessu landi allt of lengi.