154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

fjöldi lögreglumanna.

460. mál
[19:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði spurningu minni um það hvort hún telji fjölda lögreglumanna haldast í hendur við þau verkefni sem á lögreglunni hvíla og hún er afdráttarlaus í svörum um að svo sé ekki. Hæstv. ráðherra veit líka að þannig hefur staðan verið til lengri tíma. Þegar við horfum á markmiðin með setningu þessa nýja embættis árið 2007 þá sjáum við að lögreglumönnum hefur frá þeim tímapunkti og til dagsins í dag fækkað um meira en 40. Það er 13% fækkun lögreglumanna á sama tíma og höfuðborgarsvæðið allt hefur vaxið og fólksfjölgun verið gríðarlega mikil. Það er rúmlega einn lögreglumaður á hverja 1.000 íbúa. Hæstv. ráðherra talar um stóreflda löggæslu og nefnir tiltekin atriði þar. En það hljómar þannig að það séu þá aukin verkefni fyrir það starfsfólk sem þegar starfar hjá embættunum því tölulegur veruleiki málsins blasir við, um mannfjölda og að allt umhverfi afbrota er snarlega að breytast. Höfuðborgin stendur eins og hún stendur í samanburði við landsbyggð og Ísland stendur eins og það stendur í alþjóðlegum samanburði. Þetta er ekki ný saga. Þetta er staða lögreglunnar til margra ára. Ég saknaði þess hjá hæstv. ráðherra að heyra hvernig hún ætlar að bregðast við, hvaða pólitísku áherslur hennar við munum sjá birtast í næsta fjárlagafrumvarpi. Þegar staðan er sú að það vantar 200 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu til að ná hlutfallinu þar sem það er næstlægst á landsbyggðinni þá þarf að gera betur. Mun það birtast í fjármögnun eða verða þetta orð um aukin verkefni þeirra lögreglumanna sem þegar eru starfandi? Þetta skiptir máli fyrir öryggi landsmanna, öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður og jöfnum höndum öryggi lögreglumanna sjálfra.