154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Guðrún Sigríður Ágústsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sú mikla skerðing sem orðið hefur á heilbrigðisþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum og reyndar víðar á landsbyggðinni er mikið áhyggjuefni. Stöðugildum lækna og hjúkrunarfræðinga fækkar stöðugt og fólk þarf sífellt að fara mun lengra til að sækja sér þessa þjónustu. Nú er svo komið að víða má finna fyrir kvíða og ótta gagnvart læknisþjónustu þessa lands eða öllu heldur skorti á henni. Að mínu mati er þessi skerta þjónusta farin að nálgast mannréttindabrot. Þetta bitnar sérstaklega á eldri borgurum. Það er óásættanlegt að loforð um áhyggjulaust ævikvöld sé innantómt. Gleymdum við því að fólkið sem byggði þetta land yrði gamalt? Það getur ekki talist eðlilegt að harðfullorðið fólk þurfi að ferðast tugi kílómetra um fjallvegi og heiðar í öllum veðrum og á alls konar vegum til að sækja sér þjónustu sem oft og tíðum væri hægt að leysa með litlu inngripi eða hreinlega myndsímtali. Þetta verður til þess að lítil og auðleysanleg heilsufarsmál verða stærri og ekki síst kostnaðarmeiri. Við þurfum ekki að búa svona að fólki á tímum óteljandi tækni- og fjarvinnsluúrræða, úrræða sem auk þess myndu stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu og gætu líka verið atvinnuskapandi þar sem einkarekin fyrirtæki gætu sinnt stórum hluta af eftirliti og aðhlynningu þeirra sem þurfa oft að ferðast um langan veg til þess eins að sækja einfalda læknisþjónustu. Ég er sannfærð um að með bættri og skilvirkari þjónustu getum við dregið úr heilsukvíða eldri borgara og bætt lífsgæði þeirra svo um munar.

Virðulegi forseti. Sýnum samfélagslega ábyrgð. Við getum og eigum að gera svo miklu betur fyrir fólkið sem byggði upp samfélagið á Vestfjörðum og þarf nú að treysta á að við grípum þau og tryggjum áhyggjulaust ævikvöld.