154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mannanöfn.

22. mál
[15:08]
Horfa

Flm. (Guðbrandur Einarsson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um mannanöfn. Flutningsmenn eru ásamt sjálfum mér Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Gísli Rafn Ólafsson og Halldóra Mogensen. Frumvarpið felur í sér löngu tímabærar breytingar til að tryggja fólki frelsi til að velja sér og börnum sínum nafn. Fólk hefur kallað eftir þessu, eðlilega, enda er fátt sem er okkur jafn persónulegt og nafnið okkar.

Ásetningur forvera minna, sem settu gildandi mannanafnalög, var góður. Menn vildu koma í veg fyrir að börnum yrðu gefin nöfn sem yrðu þeim til ama og um leið að vernda tungumálið. Það er góðra gjalda vert þó að aðferðin hafi ekkert endilega verið rétt. Varðandi nöfn sem geta verið börnum til ama þá er í fyrsta lagi afar sjaldgæft að mannanafnanefnd hafni nafni af þeim sökum. Ákvörðun á þeim grundvelli felur í sér huglægt mat sem nefndin grípur ekki til nema í algjörum undantekningartilfellum.

Í öðru lagi eru ótal aðrir hlutir sem foreldrar geta gert börnum sínum í uppeldinu sem verður þeim til ama án þess að löggjafinn telji ástæðu til að grípa þar inn í, t.d. þegar foreldrar velja börnum sínum föt, klippingu eða tómstundir, gefa þeim hollan eða óhollan mat, velja búsetu o.s.frv. Engum dettur í hug að ríkið komi inn með regluverki og opinberri nefnd til að stýra slíku.

Í þriðja lagi þá elska foreldrar börnin sín og vilja ekki gefa þeim nafn sem yrði börnunum til ama. Komi einhver tilfelli upp um hið gagnstæða — ef foreldrar eru tilbúnir til þess að gefa barni sínu slíkt ónefni að það réttlæti opinbert eftirlit —þá er einfaldlega rétt að barnaverndaryfirvöld stígi þar inn. Það væri merki um alvarlega vanrækslu strax í frumbernsku sem gott væri að kæmi fram frekar en að hún strandaði sem synjun mannanafnanefndar eða það, sem er líklegra, að hún kæmi ekki einu sinni inn á borð nefndarinnar.

Við þetta má síðan bæta að fjölmörg góð og gild íslensk nöfn í mannanafnaskrá geta verið nafnbera sínum til ama. Börn hafa ótrúlega frjótt ímyndunarafl til að finna uppnefni og ýmsar persónur, bæði raunverulegar og skáldaðar, geta haft áhrif á það hversu vel manni líkar við nafnið sitt. Núgildandi mannanafnalög veita því enga raunverulega vernd gegn því að nafn sé einhverjum til ama.

Þá eru það hin rökin sem snúa að vernd íslenskrar málhefðar og nafnahefðarinnar. Það eru athyglisverð rök því að nafnahefðin okkar þróaðist í aldanna rás án þess að um hana giltu einhver sérstök lög. Það var ekki fyrr en fyrir rétt rúmri öld sem fólki datt fyrst í hug að setja lög til að verja hefð sem þá hafði ríkt í þúsund ár. Fyrstu lögin um mannanöfn voru sett árið 1914. Það var síðan árið 1925 sem lög voru sett sem bönnuðu fólki að taka upp ný ættarnöfn. Þau ættarnöfn sem áður höfðu verið tekin upp í málið voru bundin við börn og barnabörn þeirra sem tekið höfðu þau upp. Þeim lögum var reyndar nokkuð illa fylgt eftir þannig að allnokkur dæmi voru um að ættarnöfn væru engu að síður tekin upp á árunum þar á eftir.

Árið 1991 voru ný lög um mannanöfn samþykkt. Þar voru þá bæði þessi svokölluðu löglegu ættarnöfn sem og hin ólöglegu fest í sessi að nýju og skerpt á því banni að taka mætti upp ný ættarnöfn. Það rímar mjög illa við nútímasamfélag, virðulegur forseti, þar sem við erum með einhvers konar forréttindahóp sem má bera ættarnöfn og má viðhalda þeim út frá því að forfeður þeirra hafi á einhverjum tímapunkti ákveðið að breyta nafni sínu í þessa veru. Flest eru þessi ættarnöfn, í huga þeirra sem aðhyllast forsjárhyggjuna, sennilega mjög alvarlegt frávik frá íslenskri málhefð. Auðvitað á hverjum manni að vera frjálst hvort hann kýs að taka upp ættarnafn eða ekki, viðhalda ættarnöfnum sem notið hafa hefðar í viðkomandi ættum eða endurreisa jafnvel ættarnöfn erlendra forfeðra eða foreldra sem lengi vel var bannað samkvæmt íslenskum lögum.

Stundum heyrir maður að fólk óttist það að án mannanafnalaga muni allir Íslendingar að endingu taka upp ættarnöfn. Á hinum Norðurlöndunum hafi venjan einu sinni verið föður- og móðurnöfn en nú hafi bara allir ættarnöfn. Þá spyr ég venjulega á móti: Hvaða ættarnöfn hefðir þú gefið börnunum þínum ef það væru engin mannanafnalög? Svarið er ávallt það sama. Viðkomandi hefði bara gefið barninu sínu sama föður- og móðurnafn og hann gerði. Það fylgir ekki sögunni að á hinum Norðurlöndunum voru sett lög sem skylduðu fólk til að taka upp ættarnöfn; árið 1828 í Danmörku, árið 1901 í Svíþjóð og árið 1921 í Noregi. Þar var nefnilega löggjafinn að þvælast fyrir hefðinni og afnema hana. Hefðir eru miklu sterkari þegar þær fá að lifa frjálsar frá inngripum hins opinbera.

Við þurfum ekki lög eða þvinganir til að viðhalda einhverri tiltekinni hefð eða tilteknum venjum. Menningin lifir með fólkinu en ekki með lögunum. Útgangspunktur þessa frumvarps er að við eigum að geta treyst fólki til að þróa þessa nafnahefð okkar áfram með sama hætti og við eigum að geta treyst foreldrum til að velja börnum sínum nöfn sem verði þeim ekki til ama þegar fram í sækir.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp hefur verið lagt fram áður, á 148. þingi, 149. og 152. þingi, en náði samt ekki fram að ganga. Þegar frumvarpið var fyrst lagt fram fól það í sér löngu tímabæra breytingu, að nöfn yrðu ekki bara bundin ákveðnu kyni og að fólk gæti valið kenninafnið „bur“ í stað „sonar“ eða „dóttur“. Síðan þá hefur ríkisstjórnin staðið sjálf fyrir breytingum á lögunum sem er afar jákvætt. Þá hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu frá því að það var síðast lagt fram til að bregðast við umsögnum um að hægt yrði að knýja fram breytingar á nafni ef það væri beinlínis meiðandi fyrir barnið.

Það er ágætt að hafa það í huga að réttur til nafns nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Það er auðvitað persónubundinn réttur og nafn er nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og varðar fyrst og fremst einkahagi og persónurétt. Í þeim lögum um mannanöfn sem lagt er til að breyta eru víðtækar takmarkanir á þessum rétti sem ekki verða rökstuddar með vísan til almannahagsmuna eða annarra hagsmuna sem réttlætanlegt er að byggja á í nútímasamfélagi.

Ég mun nú í stuttu máli fara í gegnum breytingarnar sem frumvarpið felur í sér og hvers vegna þær eru svo umfangsmiklar að tilefni sé til að leggja fram frumvarp um ný heildarlög í stað þess að gera breytingar á gildandi lögum.

Hinu nýja frumvarpi er skipt í þrjá kafla í stað níu í gildandi lögum. I. kaflinn ber titilinn Fullt nafn og nafngjöf. Hann er um margt sambærilegur I. kafla núgildandi laga. Einn munur er að lögin hefjast nú á þeirri yfirlýsingu að allir hafi rétt til nafns sem hefur ekki komið áður fyrir í íslenskum lögum þótt um mikilvægan grundvallarrétt sé að ræða. Þá eru í kaflanum felld brott ákvæði sem snúa að millinöfnum og hámarksfjölda nafna. IV. kafli núgildandi laga um kenninöfn er felldur inn í hann og bætt við að heimilt sé að nota ættarnöfn sem kenninafn. Varðandi millinöfn er gengið út frá því að þau millinöfn sem nú eru í notkun geti annaðhvort verið skráð sem eiginnafn eða ættarnafn eftir því hvað nafnberinn kýs.

Í II. kafla er fjallað um nafnbreytingar. Þar eru ákvæðin efnislega lík VI. kafla gildandi laga nema ákvæðin eru einfölduð og takmarkanir á því hversu oft fólk geti breytt nafni sínu eru felldar brott.

Í III. kafla er að lokum samansafn ýmissa ákvæða sem taka til ritháttar nafna í opinberum skrám, reglugerðarheimildir fyrir ráðherra um rithátt og miðlun nafna og sektarheimildir ef forsjáraðilar draga það óhóflega að gefa barni nafn eða ef þeir gefa því nafn sem augljóslega er meiðandi eða vanvirðandi. Í fyrra tilfellinu hefur fjárhæð sektar verið reiknuð upp miðað við vísitölu og námunduð niður á næsta þúsund fyrir neðan. Þar er því um að ræða raunlækkun á fjárhæð sekta. Varðandi seinna tilvikið er lagt til að sektir fyrir að breyta ekki vanvirðandi nafni séu fimmfalt hærri en sektir fyrir það að draga það að gefa nafn. Flutningsmenn vona að það dugi til að róa þá þingmenn meiri hlutans sem hafa mestar áhyggjur af velsæmi í nafngjöfum barna.

Virðulegur forseti. Ef við skoðum nöfnin sem hafa verið samþykkt og þau sem hefur verið hafnað af mannanafnanefnd þá er erfitt að sjá einhverja skýra línu. Þannig hlaut nafnið Ullr náð fyrir augum nefndarinnar en ekki nafnið Heiðr. Erykah var samþykkt en ekki nafnið Nathalía. Gottlieb var samþykkt en ekki Rósmarín. Gunni var samþykkt en ekki Theo. Ekkert af þessum nöfnum er sérstaklega meiðandi eða vanvirðandi þótt mörg þeirra séu ný fyrir mér.

Þá gilda líka ólík lögmál um nafngjöf barna og fullorðinna. Þótt áfram verði talið að einhver tiltekin nöfn væru meiðandi ef þau væru gefin nýfæddu barni þýðir það ekki að þau rök standi til þess að banna fullveðja sjálfráða einstaklingi að heita því sem hann vill. Þvert á móti ætti fullorðið fólk að geta valið sér hvaða nafn sem er, meiðandi eða ekki. Frelsið snýst nefnilega ekki bara um það hvort við styðjum rétt fólks til að gera eitthvað sem við erum sammála, það snýst líka um að styðja rétt fólks varðandi það sem við erum ósammála um svo lengi sem grunngildum um að það valdi ekki öðrum skaða er framfylgt.

Virðulegur forseti. Í um þúsund ár hafði íslensk þjóð fullt og óskorað frelsi til að nefna börn sín þeim nöfnum sem hún kaus. Það frelsi skilaði þeirri nafnahefð sem Alþingi hefur síðustu áratugi talið þörf á að festa í sessi með sérstökum mannanafnalögum og með mannanafnanefnd. Er ekki kominn tími til að treysta fólki aftur fyrir eigin nöfnum? Eru það ekki almannahagsmunir?

Virðulegur forseti. Að því sögðu legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu. Þar mun það vonandi hljóta skjóta og góða afgreiðslu.