154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mannanöfn.

22. mál
[15:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er áhugavert frumvarp sem hér er á ferðinni. Þar kemur fram í 1. gr. að allir eigi rétt til nafns og einnig segir að fullt nafn einstaklings sé eiginnafn hans eða eiginnöfn og kenninöfn. Svo segir í 2. gr. að skylt sé að gefa barni nafn. Það virðist því bæði vera réttur og skylda að hafa nafn, ríkisvaldið krefst þess og það er væntanlega íþyngjandi að leggja þessa skyldu á einstaklinginn að hann eigi að bera nafn. En það er líka réttur hans, ég skil það ekki alveg, sami hluturinn er bæði réttur og skylda. En hvað um það.

Það sem mig langar að spyrja út í og mér finnst áhugavert er það sem kemur fram í frumvarpinu: „Íslensk nafnahefð og íslenskt málkerfi er varið með neikvæðum íþyngjandi formerkjum í núgildandi lögum.“ Ég er ekki alveg að skilja þetta og væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti útskýrt það. Svo kemur fram að með því að fella brott ákvæði þess efnis að nöfn stangist ekki á við íslenskt málkerfi sé opnað fyrir möguleikann á því að tungumálið og nöfn þar á meðal fái að taka breytingum og þróast. Ég hef ekki séð þetta vandamál varðandi breytingar og þróun á þessu sviði. Svo kemur fram, með leyfi forseta:

„Vissulega er íslensk nafnahefð fyrirbæri sem á sér rætur í menningu okkar. Menningu okkar sækjum við alls staðar að og þannig á íslensk nafnahefð m.a. einnig rætur í danskri, franskri og enskri menningu.“

Eins og ég skil íslenska nafnahefð þá á hún rætur í íslenskri menningu sem á rætur í norrænni menningu, sem á rætur í evrópskri menningu. Við getum tekið nafnið Kristján, það er Christian í Frakklandi og svo áfram í skandinavísku ríkjunum. Eins og ég skil íslenska nafnahefð og nafnalögin þá er þetta til að verja íslenska tungu og ekki síður það að við höfum ekki verið með ættarnafnakerfi. Við höfum verið með kenninöfn, þú ert kenndur við föður, föðurnafn, eða móður, móðurnafn, eða ættarnafn. Við höfum verið að verja þetta kerfi, að við séum með dóttur og son. (Forseti hringir.) Þú kennir þig við föður. Ég heiti ekki Ármannsson heldur kenni ég mig við föður minn. Spurningin er þessi: Á að breyta þessu kerfi líka? (Forseti hringir.) Ef þingmaður gæti útskýrt aðeins betur þessa íslensku nafnahefð sem á m.a. rætur í Frakklandi.

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmann á ræðutímann.)