154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:31]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir að fara fyrir þessu máli hér, og hans fólki. Ég fagna innkomu þessa máls og styð það heils hugar. Það er ýmislegt sem kannski hefur tafið það að við höfum tekið nægilega fast á þessu. Það er voðalega þægilegt þegar fólk úti í bæ tekur sig saman um eitthvað og fer að berjast gegn krabbameini eða fíknisjúkdómum og slíku, þá þarf ríkið kannski að hafa minni áhyggjur. Ég er ekki að vanmeta það góða starf sem hefur verið unnið á vettvangi SÁÁ eða Hjartaverndar og allra þessara sjálfsprottnu hópa og samtaka en það er í raun algjörlega fráleitt að við skulum ekki fyrir löngu hafa komið okkur upp skýrri og sterkri stefnu í þessum málaflokki miðað við alla harmleikina, öll dauðsföllin, öll slysin, alla hjónaskilnaðina og allt sem tengist þessum skelfilega sjúkdómi sem til skamms tíma var ekki einu sinni viðurkenndur sem sjúkdómur. Þetta var bara aumingjaskapur. Fíkn er sennilega yfirheitið yfir þetta allt saman. Nú sjáum við í landi eins og Bandaríkjunum alveg gríðarlegan faraldur af grafalvarlegri fíknisjúkdómabylgju. Við höfum aldrei séð neitt þvílíkt, fólk er gjörsamlega svipt öllu skyni og ráfar um og er að glíma við einhverja ósýnilega drauga og takast á við þá. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Þurfum við ekki að grípa inn í tafarlaust, jafnvel áður en stefnan er fullmótuð, og reyna að koma í veg fyrir þessa hryllilegu vímugjafa sem hér er vísað til, ópíóíða og fentanýl og slíkt?