154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

barnalög og tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

78. mál
[17:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Hér er verið að leggja fram mikilvægt frumvarp í þriðja sinn. Ég hef verið stoltur meðflutningsmaður á því frá upphafi. Það er ánægjulegt að fulltrúar nær allra flokka eru með á þessu frumvarpi. Það ætti að kenna okkur það að góðar hugmyndir geta komið hvaðan sem er, meira að segja úr Sjálfstæðisflokknum. Og þegar góðar hugmyndir koma fram frá þingmönnum, hugmyndir um hvernig bæta megi það samfélag sem við búum í, hugmyndir sem við öll tökum undir, þá eigum við ekki að þurfa að láta slíkar hugmyndir deyja drottni sínum í nefndum heldur eigum við að leggja okkur fram við það, öll sem eitt, að tryggja framgöngu slíkra mála. Ég hvet hv. þingheim til þess að breyta því vinnulagi sem hefur verið undanfarin ár þar sem góðar hugmyndir, líkt og þessi, fá ekki brautargengi. Flytja þarf þær aftur og aftur á meðan fjölskyldur og einstaklingar bíða eftir lausn á frjósemisvandamáli sínu. Það er til skammar fyrir okkur. Við eigum að takast á við það, með þetta og önnur góð mál, að hætta þessari sandkassapólitík sem hefur verið hér inni þar sem við erum að semja um hvaða góðu hugmyndir fái að fara í gegn. Ég skora á alla formenn þingflokka að taka sig saman, setjast niður og hleypa þessum málum í gegn, tryggja að þau fái framgang, vegna þess að ef við þurfum að flytja þetta mál saman aftur í fjórða sinn er Alþingi ekki að virka fyrir fólkið í landinu.