154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

86. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála. Ásamt þeim sem hér stendur eru á málinu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins Óli Björn Kárason, Hildur Sverrisdóttir, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir og Ásmundur Friðriksson. Tillagan gengur út á að Alþingi álykti að fela utanríkisráðherra að hafa forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál.

Tillaga þessi var flutt í fyrsta sinn á 153. löggjafarþingi og er nú flutt að nýju óbreytt.

Lýðræðisríki læra og laga sig að breyttum veruleika. Þann styrk verður íslenska þjóðin að nýta sér í þágu eigin öryggis, á grundvelli þekkingar sem reist er á fræðilegum grunni og fenginni reynslu. Önnur vopn hefur hún ekki. Er því lagt til að undir handarjaðri Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands starfi sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál (RÖV) á grundvelli samnings við utanríkisráðuneytið.

Til að rannsóknasetrið sé starfhæft þarf að tryggja grunnfjárveitingu af hálfu ríkisins vegna tveggja starfsmanna við setrið. Á setrinu verði stundaðar rannsóknir sem nýtast á hagnýtan og fræðilegan hátt fyrir þá sem undirbúa og taka ákvarðanir um hernaðarlegt og borgaralegt öryggi. Setrið verði fræðilegur og hagnýtur samstarfsvettvangur þeirra sem standa að samhæfingarstöð um almannavarnir auk öryggisdeilda einkarekinna fyrirtækja. Starfsmenn ráðuneyta og stofnana geti nýtt setrið til að dýpka eða víkka þekkingu sína. Þá tengist setrið erlendum rannsóknastofnunum sjálfstætt og í alþjóðlegu samstarfsneti Alþjóðamálastofnunar HÍ. Rannsóknarstjóri stjórni setrinu og verði starf hans auglýst. Setrið hafi aðstöðu í húsnæði Alþjóðamálastofnunar. Setrið beiti sér fyrir útgáfu efnis á íslensku og ensku, standi að opinberum fyrirlestrum og málþingum, eitt eða í samvinnu við aðra.

Að tillögunni samþykktri verði veitt fé á fjárlögum ársins 2024 til að stíga megi fyrstu skref til að undirbúa samning utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar HÍ um RÖV. Höfð verði hliðsjón af skipulagi og þróun sambærilegra rannsóknasetra annars staðar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.

Innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 gjörbreytti þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Innrásin setur svip sinn á nýja grunnstefnu NATO sem samþykkt var í Madríd 29. júní 2022 og á sameiginlega yfirlýsingu um norræna samvinnu í öryggis- og varnarmálum sem gefin var út 15. ágúst 2022 af forsætisráðherrum Norðurlandanna.

Í norrænu yfirlýsingunni segir meðal annars að viðnámsþróttur norrænu samfélaganna skuli efldur á friðartímum, í hættuástandi og átökum með „sameiginlegu stöðumati, samvinnu í allsherjarvörnum, hagvörnum og viðnámsþrótti gagnvart skaðvænlegum aðgerðum á borð við netárásir og fjölþátta ógnir“. Virk þátttaka Íslendinga í svo víðtæku samstarfi verður ekki tryggð án þess að hér séu stundaðar fræðilegar rannsóknir á þessum sviðum í samvinnu við norrænar stofnanir. Íslendingar eiga beinlínis á hættu að einangrast á þessu nýja norræna samstarfssviði sé ekki stutt við starfsemi á borð við þá sem eðlilegt er að unnin sé á vegum RÖV.

Á níunda áratug 20. aldar starfaði öryggismálanefnd á vegum forsætisráðuneytisins með fulltrúum þingflokka. Vegna starfa hennar varð til sérfræðiþekking og miðlun hennar jók gagnkvæman skilning milli flokka í kalda stríðinu. Nefndin var lögð niður þegar því lauk.

Alþingi ályktaði 30. mars 2009 að fela ríkisstjórn Íslands að kanna grundvöll þess að setja á stofn sjálfstætt rannsóknasetur á sviði utanríkis- og öryggismála. Ríkisstjórnin fól nefnd allra þingflokka sem skipuð var í janúar 2012 á grundvelli þingsályktunar frá september 2011 um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland að huga að framkvæmd tillögunnar.

Í tillögum nefndarinnar um þjóðaröryggisstefnu frá 20. febrúar 2014 segir:

„Telur nefndin ekki forsendur fyrir því að setja á fót slíkt setur við núverandi aðstæður, einkum af fjárhagsástæðum. Verður því fyrsta kastið að byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem fyrir er. Þar er nærtækast að horfa til háskóla- og fræðasamfélagsins. Þegar aðstæður leyfa og fjármunir eru fyrir hendi telur nefndin rétt að skoða á ný stofnun slíks sérfræðiseturs.“

Í 6. tölulið þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem Alþingi samþykkti 13. apríl 2016, segir að stefnan feli í sér:

„Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.“

Þessi ályktun snýr að því að tryggja að í landinu sé fyrir hendi sérfræðiþekkingin sem er einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnunnar.

Þá er ég búinn að fara í gegnum þingsályktunartillöguna. Síðastliðinn þingvetur var málið tekið upp í utanríkismálanefnd og þar komu tvær umsagnir, annars vegar frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og frá Háskólanum á Bifröst og mjög gott að fá þær umsagnir. Ég held að allir aðilar í fræðasamfélaginu á Íslandi telji að það sé mikilvægt að vinna að þessum málum, að afla meiri sérfræðiþekkingar í landinu sem snýr að öryggis- og varnarmálum. Það er von mín að þegar málið fer eftir þessa umræðu til utanríkismálanefndar og verður tekið þar til umræðu gangi það vel fyrir sig og nefndin skoði þessar umsagnir og óski eftir umsögnum við málið. Ég reikna með að þessir umsagnaraðilar í fyrra komi fram aftur með sínar umsagnir og hafi vonandi bara enn þá meira fram að færa. Það er margt gott í báðum umsögnum varðandi málið og ég vona að það verði lífleg umræða hér á eftir um þetta mál og það sem það snýst um.

Það er mikilvægt að hafa í huga að öryggisumhverfi Íslands hefur breyst alveg gríðarlega mikið aftur. Kalda stríðinu lauk fyrir 30 árum, í kringum 1990. Eftir það var umræðan mjög takmörkuð og þessi málefni féllu svolítið í gleymsku, áhugaleysið var mikið á þessu sviði. Það lifnaði kannski aðeins yfir umræðu um þessi málefni eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York og á Pentagon 11. september 2001, það hafði einnig mikil áhrif á hvernig litið var á öryggismál í okkar heimshluta, út frá því hvar Bandaríkjamenn staðsettu sinn herafla. Í framhaldi af því, eða fimm árum síðar, var Keflavíkurstöðin lögð af, herstöðin á Miðnesheiði. Síðan hefur náttúrlega verið mikil umræða og orðið miklar breytingar og kannski helst frá 2018, þá sér maður miklar breytingar hér á Norður-Atlantshafinu. Oft er bent á þennan tímapunkt, sumarið og haustið 2018, í september, þegar herskipið Harry Truman kom hér upp við Íslandsstrendur. Þá voru liðin 30 ár síðan slíkt skip kom svona norðarlega í Norður-Atlantshafi. Breytingin hefur verið á síðustu árum sú að þessi skip eru að koma nokkuð reglulega, a.m.k. á hverju ári, m.a. á heræfingar sem hafa verið töluvert margar á undanförnum árum.

Við höfum líka séð miklar breytingar varðandi Grænland, áhuginn á ýmsum málefnum þar hefur stóraukist og allur vinkillinn sem snýr að norðurslóðum, ekki minnst í öryggis- og varnarmálum. Þetta sjáum við líka hjá Atlantshafsbandalaginu, NATO, þar hefur áhuginn verið að aukast. Þegar við tölum um þessi mál þá er líka alltaf stutt í umræðuna um leit og björgun á þessum svæðum. Víðast kemur sú geta fram hjá sjóherjum og landhelgisgæslum viðkomandi þjóða eins og Dana og Norðmanna og okkar Íslendinga og síðan eru fleiri lönd farin að láta sjá sig meira hér á Norður-Atlantshafinu. Við höfum líka séð aukna umferð á Keflavíkurflugvelli, það er bæði loftrýmisgæslan, hún hefur verið kannski fjórum, fimm, sex sinnum á ári, fjórum sinnum á ári á undanförnum árum, en mesta breytingin er kannski kafbátaleitarflug NATO og Bandaríkjanna. Við höfum séð miklar breytingar þar.

Það er ljóst að innrás Rússa í Úkraínu hefur gjörbreytt allri umræðu um þessi mál og fleiri svæði núna, Mið-Austurlönd. Það eru víða að skapast mikil vandamál. Í þessari tillögu er fyrst og fremst verið að fjalla um norðanvert Atlantshafið, okkar svæði, og ég vonast til þess að hér eigum við góða umræðu og að málið fái góða umræðu í utanríkismálanefnd. Vonandi komumst við í síðari umræðu og samþykkjum málið fyrir sumarið áður en við slítum þingi hér væntanlega í júní.

Ég vil nefna það grunnatriði í lokin að það er gríðarlega mikilvægt að við eflum og styrkjum þekkingu og umræðu um varnar- og öryggismál hér á landi. Sama hvaða skoðun við höfum á þeim þá er mikilvægt að umræðan fari fram og hún má ekki vera með þeim hætti eins og manni hefur stundum fundist tilfinningin vera, að við búum hér í ákveðinni búblu og hér sé ekki viðhöfð nein umræða um þessi mál. Skýrsla Björns Bjarnasonar frá 2020, sem hann vann fyrir norrænu utanríkisráðherrana, um þessi mál kom í beinu framhaldi af skýrslu Thorvalds Stoltenbergs eða var með svipuðum hætti og skýrsla Stoltenbergs frá 2010 um þessi mál. Ég sagði í umræðu í síðustu viku að það væri kannski full nauðsyn að endurskoða þá vinnu sem er í þeirri skýrslu, þá góðu vinnu sem unnin var þar, vegna þess hversu ótrúlega margt hefur breyst á þessum örfáum árum. Þar var meiri áhersla en við höfðum áður séð varðandi netöryggismál og ógnanir tengdar þeim og fjölþáttaógnir og slíka þætti. Þetta tengist allt stóru umræðunni, sem ég hef ekkert farið í, en áður en tíminn klárast þá vil ég kannski rétt nefna að við kláruðum að endurskoða þjóðaröryggisstefnu. Ég minntist aðeins á þjóðaröryggisstefnu sem var samþykkt 2016. Í fyrra, í þessum mánuði, 28. febrúar 2023, var samþykkt hér á þingi endurskoðuð þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland. Breytingarnar sem urðu í þeirri stefnu snúa einmitt að netöryggisógnum, fjölþáttaógnum og að gera samfélag okkar áfallaþolnara, það kemur meira fram þar sem tengist varnar- og öryggismálum. Áður hafði auðvitað verið rætt um Atlantshafsbandalagið og Ísland og varnarsamninginn við Bandaríkin en þarna er líka verið að tala um að við þurfum að fara í nánari vinnu með Norðurlandaþjóðunum og vinna saman að þessum málum. Sjálfur hef ég mjög horft til Norðurlandaþjóðanna til að vinna með eins og í netöryggismálunum. Svo höfum við NATO og okkar helstu nágrannaríki.

Tíminn er að klárast en þetta þarf allt að samþætta og þessi tillaga er einn þáttur í því. Það kemur einmitt fram í endurskoðaðri þjóðaröryggisstefnu frá í fyrra mikilvægi þess að efla fræðasamfélagið og auka sérfræðiþekkingu á varnar- og öryggismálum. Það ættum við að hafa í huga sem eyland í Norður-Atlantshafinu, sem er mikilvæg staðsetning, að viðhalda góðri og öflugri umræðu um þessi mál.