154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

86. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir andsvarið. Jú, það er gríðarlega mikilvægt, eins og ég kom að í mínu máli, að við eflum þessa umræðu. Fæðuöryggi er eitt af því. Þetta með að samþætta mismunandi stefnur og annað hjá stjórnvöldum — við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að vera í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við erum núna að ræða landsskipulagið. Þar komum við einmitt inn á fæðuöryggi. Það eru breyttar áherslur í landsskipulagsstefnunni sem tengjast svolítið þessu sem við erum að fást við í þessari umræðu. Það var kannski ekki alveg svona þegar maður var að byrja að ræða málin í þessari pontu fyrir sjö árum, en nú eru miklu fleiri komnir með þetta inn hjá sér um þjóðhagslega mikilvæga innviði og það að gera samfélagið áfallaþolnara. Fæðuöryggið kemur þar inn og raforkukerfin, fjarskiptin, samgöngurnar og þessi grunnkerfi sem við þurfum að bæta. Fæðuöryggið, matvælaöryggi og þessir þættir eru bara hluti af þessu heildardæmi. Þegar við erum að tryggja öryggi landsmanna, þjóðarinnar, þá þurfum við virkilega að hafa þetta. Og ég held að það mætti gera miklu betur, eins og við höfum kannski aðeins verið að ræða með landsskipulagsstefnuna, í að samþætta mismunandi stefnur sem við vinnum hér í þinginu sem hafa kannski það meginmarkmið að tryggja áfallaþolið og styrkja samfélagið. Netöryggismálin ein og sér, netöryggisógnir, fjölþáttaógnir og slíkir þættir, þar hefur orðið gjörbreyting á þremur, fjórum árum. Þegar maður var að byrja að ræða þetta í NATO-þinginu fyrir svona sex, sjö árum gat maður varla komið heim og talað um þetta því það var bara enginn að pæla í þessu, umræðan hefði bara orðið svolítið skrýtin um hvað væri að gerast. (Forseti hringir.) En þetta er allt að koma hjá okkur og vonandi styrkir þetta umræðuna enn frekar.