154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

86. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hafa verið rannsóknir í íslenskum háskólum? Það kemur einmitt fram í umsögnum aðila við málið í fyrra, þegar það var lagt fram í fyrsta skipti, frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst — í umsögn Alþjóðamálastofnunar er talað um að rannsóknir hafi verið stundaðar um áratugaskeið, ég held að það hafi verið orðið sem var notað. Ég geri mér vonir um að hér inni sé hv. þingmaður sem vill koma inn í þessa umræðu á eftir; hann hefur þekkingu og hefur unnið að þessum málum. Bifröst kemur bara með mjög fína umsögn, þar er kannski talað meira um áfallaþol samfélags, ef ég man rétt hvernig það var orðað.

Það sem mér finnst þessi tillaga ganga svolítið mikið út á er að við klárum raunverulega það sem er sett í þjóðaröryggisstefnuna 2016, í mars, apríl , og var samþykkt hér í þinginu, og síðan endurskoðaða þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var 28. febrúar í fyrra. Það er akkúrat þessi 6. liður, sjötta áherslan, sem snýr m.a. að sérfræðiþekkingu, það er margt talið til. Ég held að þetta sé bara einn þáttur í að ýta undir að við framkvæmum og styrkjum þjóðaröryggisstefnuna, að fara í sjálfstæðar og almennar rannsóknir fyrir opnum tjöldum og með umræðu hér á Íslandi og eflum það sem snýr að þessu í íslenskum háskólum. Það kom fram hér áðan að það er líka gríðarlega mikilvægt að vinna þetta náið og þá sérstaklega með norrænu ríkjunum og kannski Eystrasaltsríkjunum, ríkjum í norðanverðri Evrópu. En það skiptir rosalegu máli, held ég, fyrir íslenskt samfélag að vel sé að þessu staðið.