154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hér sé verið að ræða hið hræðilega ástand á Gaza og stöðu flóttamanna þar. Það er nauðsynlegt að halda nokkrum staðreyndum til haga. Á Norðurlöndunum hafa verið fluttir um 850 einstaklingar heim, þar af 750 ríkisborgarar, um 100 sem eru undir vernd. Danir og Finnar hafa samtals tekið um 40. Á Íslandi eru þetta 128. Við erum sem sagt með fleiri einstaklinga en Norðurlöndin öll til samans þegar þetta er borið saman. Þetta væri af þeirri stærðargráðu, ef Norðurlöndin ættu að taka heim sambærilegan fjölda sem er með þessa stöðu sem við ræðum um, þeir sem eru með vernd á Íslandi, að þetta ættu að vera á milli 3.000 og 4.000 manns. Það geta allir séð hvers lags gríðarlegt átak það hefði verið og stórt verkefni fyrir Norðurlöndin að takast á við. Verkefnið er þess vegna stórkostlegt en það er aftur á móti gert að mínu mati lítið úr því í allri umræðu hversu umfangsmikið það er fyrir okkur.

Við þurfum að einfalda reglur. Við erum með miklu einfaldari reglur um fjölskyldusameiningu heldur en aðrar þjóðir og hér er sótt um t.d. fyrir fólk sem er fjarverandi. Það þarf að staðreyna þetta fólk. Það eru margar leiðir sem þarf að skoða í þessu sambandi. Utanríkisráðherra hefur sagt að málið sé rætt í fullri alvöru í ráðherranefnd og undirbúið. Það er nauðsynlegt aftur á móti að hafa heildarsamhengið í reglum og fordæmi til hliðsjónar. Við verðum líka að vinna eftir opinberum diplómatískum leiðum og við erum ekki með sendiráð á þessu svæði þannig að það gerir málin miklu flóknari. En nafnalistar voru sendir út í desember þannig að vinnan er í gangi. Við verðum að nálgast þetta í málefnalegri umræðu og staðan er erfið. Það er verið að vinna af fullum heilindum við ríkisstjórnarborðið í þessu. En við verðum líka að átta okkur á því að verkefnin eru að verða okkur ofviða, sérstaklega ef við breytum ekki þeim reglum sem hér gilda til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.