154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér á eftir fer fram sérstök umræða sem ég óskaði eftir að fá að eiga við hæstv. dómsmálaráðherra um fáliðaða lögreglu. Þessi staða er alvarleg og tímabært að vekja athygli á því hversu alvarleg hún er og hverjar birtingarmyndirnar eru fyrir fólkið í landinu. Það er þrennt sem ég ætla sérstaklega að draga fram. Hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem þjónar tæplega 250.000 íbúum þjóðarinnar, starfa í dag færri lögreglumenn en þegar embættið var stofnað árið 2007. Þá störfuðu þar 339 lögreglumenn en í dag eru þeir orðnir 297 talsins, voru það í fyrra. Hvað skýrir þá forgangsröðun stjórnvalda að lögreglumönnum hafi fækkað á þessu tímabili á sama tíma og fólksfjölgun hefur verið gríðarleg og verkefni lögreglunnar hafa þyngst? Árið 2022 voru starfandi 1,2 lögreglumenn á hverja 1.000 íbúa á höfuðborgarsvæðinu, einn á hverja 1.000. Telur dómsmálaráðherra að fáliðuð lögregla geti sinnt grundvallarhlutverki sínu, að geta tryggt öryggi borgaranna? Telur dómsmálaráðherra að svo fáliðuð lögregla búi við öruggt starfsumhverfi? Lögreglan yfir landið allt er fámenn í samanburði við önnur ríki. Árið 2020 var fjöldi lögreglumanna á hverja 100.000 íbúa næstlægstur á Íslandi í samanburði við 32 önnur Evrópuríki. Við þekkjum það að dómar hafa fyrnst í ofbeldis- og kynferðisbrotamálum en Fangelsismálastofnun hefur lýst því að vegna vanfjármögnunar hafi ekki verið hægt að boða dæmda menn til afplánunar. Ég hlakka til umræðunnar og ég segi það tímabært að löggæslan í landinu verði ekki lengur afgangsstærð í Stjórnarráðinu.