154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Eðli starfa í lögreglunni er miklu fjölbreyttara en áður var. Fjöldi tengdra sérfræðinga á fjölbreyttu sviði sem ekki eru endilega menntaðir lögreglumenn er kominn til starfa. Þetta verður auðvitað að telja allt saman. Við erum sammála og ég er sammála um mikilvægi þess að efla lögregluna, um það þarf enginn að efast. Við stigum eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið, alla vega í mjög langan tíma, á árunum 2022 og 2023. Það er einmitt flokkurinn sem rígheldur í þetta embætti sem stóð fyrir þeim skrefum. Það var umfangsmikil efling almennrar löggæslu, efling menntunar og við tvöfölduðum útskriftarárganga í Lögregluskólanum í háskólanámi. Það var aðgerðaáætlun gegn kynferðisafbrotum og árangurinn er ótvíræður einmitt eftir þær aðgerðir. Ný lög um réttarstöðu brotaþola og stórefling aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi. Hér vantar reyndar heimildir. Það fjölgaði stöðugildum um sennilega allt að 80; 30 lögreglumenn um allt land, almennir lögreglumenn, tíu sérfræðingar í til að mynda almannavarnir og samfélagslöggæslu, tíu landamæraverðir, 20 störf í skipulagðri brotastarfsemi og tíu störf tengd rannsókn og saksókn í kynferðisofbeldi.

Þessi samstaða um að efla lögreglu í landinu er góð en fjöldinn er ekki allt. Það sem er auðvitað mikilvægt líka er að gefa lögreglu þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að hún geti sinnt störfum sínum með sem mestri skilvirkni og um það hefur verið deilt á Alþingi. Það er alveg með ólíkindum hvað það hefur verið erfitt fyrir okkur Sjálfstæðismenn í dómsmálaráðuneytinu að koma í gegn frumvörpum og lögum sem lögreglan kallar einmitt eftir til að geta eflt sín störf og tryggt betur öryggi borgaranna í þessu landi. Það þarf líka að huga að varnar- og öryggisbúnaði lögreglu og aftur erum við í ágreiningi. En þar hafa verið stigin stór skref og við þurfum að horfa alveg sérstaklega til þess, ég tala nú ekki um í ljósi síðustu upplýsinga sem eru óhuggulegar um það hvernig beinar hótanir og aðgerðir gegn lögreglumönnum eru að eiga sér stað á heimilum þeirra og á þeirra einkaeigum.