154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum öllum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og sérstaklega hæstv. dómsmálaráðherra. Mér hefur fundist fyrstu skref hennar í embætti gefa tilefni til þess að vera jákvæð og mér finnst svör hennar í dag vera á sömu nótunum. Næsta fjárlagafrumvarp held ég að muni svara því hvort og hvernig hún ætlar að sýna það í verki því að það er auðvitað sláandi til þess að hugsa að frá árinu 2007 hafi lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 13% á sama tíma og fólksfjölgun hefur verið hér gríðarlega mikil, ævintýraleg fjölgun ferðamanna og allt umhverfi afbrota flóknara og þyngra en þá var. Ég er sammála því sem margir þingmenn hafa komið inn á um breytt starfsumhverfi lögreglunnar og flóknari veruleika. Við sjáum það bæði í tölfræði en líka í fjölmiðlaumfjöllun að vopnaburður er t.d. að aukast. En grunnurinn í allri umræðu um löggæslu hlýtur að vera að almenna löggæslan sé sterk. Almenna löggæslan er grunnurinn að öllu öðru starfi lögreglunnar. Ég vil líka sérstaklega árétta, af því að ég er hér að tala sérstaklega um höfuðborgarsvæðið, að ég er mjög vel meðvituð um það hver staðan er á landinu öllu og ég er ekki að nefna það til að gefa til kynna að mér þyki staðan á landsbyggðinni nægilega góð. Það er hún sannarlega ekki. Ég er tilbúin í samtal um frekari verkfæri í þágu lögreglu en það getur aldrei komið í staðinn fyrir það að vera með sterka löggæslu í grunninn. Ég þakka þingmönnum öllum fyrir umræðuna. Ég vona að hún veki ríkisstjórnarflokkanna af værum svefni sínum í þessum málaflokki og að þetta verði til þess að við förum að nálgast málaflokkinn töluvert ofar á blaði en verið hefur. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega svo að ekki öll verkefni ríkisins eru jafn mikilvæg og hér erum við að tala um öryggi fólksins í landinu og frumskyldu stjórnvalda.