154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[17:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega skiptir það máli og auðvitað er dálítið harðneskjulegt af mér að stilla hv. þingmanni upp á bekk sem sakborningi í þessu máli vegna þess að það eru auðvitað ráðuneytið og Bríet sem hefðu átt að gera þetta fyrir löngu. Ég ætla að nota seinna svarið til að velta upp öðrum hlut sem ég kom ekki inn á í ræðunni. Við erum að tala um 7,5 milljarða og það greiða allir atkvæði með því með glöðu geði, ekkert vandamál. Þetta eru hins vegar stórar upphæðir. Þetta er ein og hálf Ölfusárbrú og einn og hálfur grunnskóli í byggingu. Um slíkar risafjárfestingar gilda náttúrulega lög og reglur. Það skiptir auðvitað máli að fjárlaganefnd kalli eftir uppgjöri á endanum og yfirliti um það með hvaða hætti eignir hafa verið valdar og að fólk flýti sér ekki svo mikið að það kasti til höndunum þegar verið er að verja fjármunum. Það er auðvitað mikilvægt út frá fjárhag ríkisins en það skiptir líka máli gagnvart verktökum og húsbyggjendum sem eru að reyna að selja vöru sína að það sé hafið yfir allan vafa að þar hafi réttu eignirnar, þær hentugustu og hagkvæmustu verið valdar. Ég kalla eftir því, af því að ég á nú ekki fasta setu í fjárlaganefnd og kem þar inn sem vikapiltur annað slagið, að formaður sé fastur á því að þegar um hægist fáum við að sjá hvernig að þessu var staðið. Ég veit að Grindvíkingar hafa líka kallað eftir því hvernig er svo valið inn eftir að búið er að kaupa. Allt skiptir þetta máli.