154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[17:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvarið og biðst afsökunar á því ef ég hef ekki verið nógu skýr hvað þetta varðar, gott að fá tækifæri til að útskýra það frekar. Við höfum rætt það líka að það að fara í þá aðgerð að auka framboðið mun auka verðbólgu líka. Ef það á að fara að setja svakalega peninga í það að auka framboð á húsnæði og byggja þá eykur það þenslu. Sennilega er besta leiðin að kaupa húsnæði að utan. Þá er ekki verið að byggja heldur flytja heil hús til landsins sem eru sett saman hér. Það hefur minni þensluáhrif. Við höfum fyrirmynd frá Heimaey, úr Vestmannaeyjagosinu, viðlagasjóðshúsin. Þau eru sennilega minna þensluhvetjandi hvað uppbygginu varðar.

Mig langar að nota tækifærið og nefna lagaheimildina sem Bríet byggir á. Vissulega á að breyta samþykktum en ég tel það engan veginn nægjanlegt. Samþykktirnar lúta eiginlega bara að innra starfi og heimildum Bríetar sem félagið sjálft gefur sér, en sá grundvöllur sem Bríet byggir á er lagagrundvöllurinn. Þar hefði átt að gera lagabreytingu, þá helst með bráðabirgðaákvæði, svo það væri alveg skýrt að Bríet hefði klára heimild til að starfa á öllu landinu en ekki bara á svæðum þar sem markaðsbrestur er. Núna er Bríet farin að starfa á öllu landinu þó svo að lagaheimildin lúti að svæðum þar sem markaðsbrestur er, þannig að það er misræmi þar á milli. Kannski, ef einhver verktaki verður óánægður, seljandi íbúðar, verður óánægður þá getur hann farið í dómsmál og haft það sem málsástæðu. Þá fengjum við umfjöllun dómstóla hvað þetta varðar og þá gætu skilaboð dómsins verið þau til okkar og ráðherra að þetta hafi ekki verið samkvæmt lögum. Ég get ekki séð að rökin standi til annars en að svo sé.

En ég vil ítreka það að ég styð þetta frumvarp, að Alþingi veiti fjárheimildir sem frumvarpið leggur til. Það er afar mikilvægt að við sem þjóð stöndum saman og veitum Grindvíkingum allan þann stuðning sem þeir þurfa á þessum erfiðu tímum.