154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

91. mál
[18:40]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Tilgangur þessa frumvarps er einfaldlega sá að gefa öryrkjum færi á að koma sér úr vítahring örorku eigi þeir þess nokkurn kost. Hluti þeirra sem eru á örorku almannatrygginga er öryrkjar vegna veikinda sem svipta þá allri starfsgetu á einhverjum tíma í lífinu en sumir þeirra eru svo heppnir að finna starfsorku sína aukast með tíð og tíma, hvort sem það er vegna hvíldar eða læknismeðferðar. Það hvort þeir búi yfir nægri starfsgetu til að fara aftur af fullum krafti á vinnumarkað kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en á það reynir og þeir hafa þegar hafið störf, og nákvæmlega þar stendur hnífurinn í kúnni. Þarna lendir öryrkinn í klemmu sem oft er kölluð upp á ensku, með leyfi forseta, „Catch 22“. Hann veit ekki hvort hann hefur heilsu til að vera á vinnumarkaði nema með því að fara á vinnumarkaðinn og prófa að vera á vinnumarkaði. En til þess að gera það þarf hann að hætta að vera öryrki og missa örorkubæturnar. Það væri kannski ekki svo slæmt ef hann kæmist þá strax á örorkubætur aftur ef í ljós kæmi að hann réði ekki við að vera á vinnumarkaði. En svo er aldeilis ekki. Öryrkinn stendur þá frammi fyrir því að þurfa að sækja aftur um örorkubætur. Það ferli tekur a.m.k. þrjá mánuði og þann tíma er öryrkinn þá launalaus.

Allt þetta gerir það að verkum að margir öryrkjar, sem líður eins og þeir hafi nógan kraft til að ráða sig til vinnu á ný, þora ekki að taka skrefið því að ef þeim mistekst og ef þeir hafa ofmetið getu sína þá verða þeir tekjulausir svo mánuðum skiptir á meðan endurmat á örorku þeirra fer fram. Það að gefa öryrkjum tveggja ára svigrúm til að prófa getu sína og sjá hvort þeir ráði við að snúa aftur á vinnumarkaðinn hlýtur að vera allra hagur.

Ég hef aldrei verið á örorku en sumarið 2019 var ég skikkuð í veikindaleyfi vegna einhvers konar örmögnunar eða kulnunar sem var afleiðing margra ára ógnar og árása fjármálafyrirtækja og opinberra aðila á heimili mitt og öryggi. Þó að ég stæði enn upprétt og stundaði mína vinnu var ég algerlega búin á því og það sá læknirinn og skikkaði mig í frí. Þó að viðkomandi trúnaðarlæknir hefði efasemdir um að tveggja mánaða leyfi væri nóg taldi ég mig alls ekki þurfa meiri tíma. Ég ætlaði að verða fullfrísk eftir smá hvíld og myndi að sjálfsögðu hefja störf við upphaf næsta skólaárs. Það stóðst. Ég var sko eiturhress og ekkert að mér þegar ég hóf störf við upphaf skólaársins 2019. Allt gekk eins og í sögu og ekkert kom upp á sem olli neinu álagi eða vandræðum, en eftir tvær vikur í kennslu vaknaði ég á mánudagsmorgni og komst ekki fram úr rúminu. Bensínið sem ég var búin að safna á tankinn í gegnum tveggja mánaða veikindaleyfi var einfaldlega uppurið. Í framhaldi af því var sett í veikindaleyfi sem stóð á endanum í heilt ár.

Með þessari sögu er ég ekki að bera mína kulnun saman við það að lenda í örorku. Ég er að segja hana til að benda á tvennt. Í fyrsta lagi hversu auðvelt er að ofmeta getu sína þegar maður vill ekkert frekar en að ná heilsu og snúa aftur til vinnu. Í mínu tilfelli var ég svolítið eins og bifreið; ég var með bensín á tanknum og gekk vel á meðan það entist, en ég áttaði mig ekki á hversu hratt myndi ganga á bensínið þegar á reyndi.

Í öðru lagi var verulega erfitt að snúa aftur til vinnu eftir eins árs leyfi. Efasemdir um að ég réði við þetta sóttu á mig og þó að ég ynni á góðum vinnustað með frábærum samstarfsfélögum kveið ég því að horfast í augu við samstarfsfólk mitt eftir þennan aumingjaskap. Það er skemmst frá því að segja að sá kvíði reyndist ástæðulaus en hann var engu að síður til staðar. Ég var ein af þeim heppnu. Ég átti góðan vinnustað til að snúa til baka á og ég náði mér aftur. Hvorugt á við um alla. Hafi þetta verið mín reynsla eftir ekki stærra áfall, lengri tíma eða meiri veikindi en þau sem ég hef lýst hér að framan þá hljóta þessi skref til baka inn á vinnumarkaðinn að vera þeim mun erfiðari fyrir þá sem hafa gengið í gegnum erfiðari veikindi gegnum lengri tíma en þetta eina ár mitt frá vinnu. Fyrir utan líkamlega getu hljóta ýmiss konar sálrænar efasemdir líka að herja á þá öryrkja sem langar að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Við þurfum því að veita öryrkjum svigrúm til að taka þessi skref á sínum hraða án þess að yfir þeim vofi ógn um margra mánaða tekjumissi hafi þeir misreiknað getu sína til starfa.

Á þessu frumvarpi tapar enginn, þvert á móti. Á þessu frumvarpi græða allir. Byrjum á ríkinu. Ríkið greiðir viðkomandi örorkubætur hvort sem hann er í vinnu eða ekki. Öryrkjar eru nú ekki ofsælir af kjörum sínum og jú, í þessi tvö ár myndi öryrkinn bæði fá örorkubætur og laun upp að þaki því sem skilgreint er í frumvarpinu. Kjarni málsins er samt sá að í því felst ekkert tap fyrir ríkið því ríkið væri hvort eð er að greiða öryrkjanum þessar bætur. Hins vegar er sá möguleiki fyrir hendi að að tveimur árum liðnum þurfi öryrkinn ekki lengur örorkubætur heldur sé orðinn fullgildur starfskraftur á vinnumarkaði. Það má því líta á þessar tveggja ára greiðslur ofan á laun öryrkjans, eins og skilgreint er í frumvarpinu, sem fjárfestingu til framtíðar því nái öryrkinn að festa sig í sessi á vinnumarkaði verður samfélagið ríkara sem um nemur vinnuframlagi hans. Þetta fyrirkomulag var reynt í Svíþjóð og þar voru það 32% öryrkja sem nýttu sér þetta tækifæri, þeir festu sig í sessi á vinnumarkaði og voru ekki lengur skilgreindir sem öryrkjar. Fyrir öryrkjann skiptir öllu máli að hann fái tækifæri til að prófa getu sína. Sé þetta kerfi ekki fyrir hendi er mjög ólíklegt að hann prófi þetta nokkurn tímann og verði því öryrki allt sitt líf, í stað þess að vera kannski einn af þessum 32% sem ná fullri heilsu á ný.

Það er því til mikils að vinna, bæði fyrir ríkisvaldið en ekki síður og í raun enn þá frekar fyrir þá einstaklinga sem hafa lent í örorku og þurfa bara tækifæri til að hugsanlega vinna sig út úr henni til framtíðar.

Ég treysti því að hv. velferðarnefnd taki þetta frumvarp til alvarlegrar íhugunar og veiti því framgöngu, þó að það sé lagt fram af stjórnarandstöðuflokki. Hér eru stærri hagsmunir undir en svo að flokkapólitík megi ráða för.