154. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2024.

Palestínubúar sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

[10:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Við höfum á undanförnum vikum verið að ræða í ráðherranefnd um útlendingamál þá stöðu sem komin er upp á Íslandi og lýsir sér í því að ekki bara kostnaður, sem hv. þingmaður vék að, heldur fjöldi þeirra sem leita hælis á Íslandi er kominn langt fram úr því sem á við á Norðurlöndunum almennt. Ein birtingarmynd þess er sú staðreynd að þeir sem nú hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar og eru enn inni á Gaza eru, ja, við getum sagt a.m.k. 30 sinnum fleiri — það er ekki gott að vera með einhver meðaltöl fyrir Norðurlöndin en við getum borið okkur saman við Norðurlöndin og sagt: Heildarfjöldi þeirra sem Norðurlöndin samanlagt, og þau erum með sendiskrifstofur þarna niður frá á þessu svæði — heildarfjöldinn sem hefur verið sóttur þangað á grundvelli dvalarleyfa er u.þ.b. jafn stór og sá hópur sem við höfum nú samþykkt að geti komið til Íslands á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þetta er þrátt fyrir að við séum bara lítið brot af þeim mannfjölda sem býr á Norðurlöndunum. Ef við myndum nota þennan samanburð aftur þá gætum við sagt að það væri eðlilegt að við værum ekki með yfir 100 manns sem biðu fjölskyldusameiningar frá Gaza heldur svona tvo til þrjá. Þessi staða, kostnaðurinn, þróunin undanfarin ár, viljaleysi Alþingis til að samþykkja tillögur dómsmálaráðherra sem hefur ítrekað komið hingað til þingsins með tillögur um að bregðast við og samræma íslensku löggjöfina því sem á við í nágrannalöndunum til að koma í veg fyrir að við Íslendingar yrðum undir sérstaklega miklum þrýstingi, allt þetta verður að skoðast í samhengi. Það höfum við verið að gera inni í ráðherranefndinni. Við höfum í mínu ráðuneyti verið að undirbúa það (Forseti hringir.) að geta sótt fólk á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum um þessa viðkvæmu stöðu, vegna þess að það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir (Forseti hringir.) að hún er grafalvarleg og fólk er í stórkostlegri lífshættu á þessu svæði og við höfum hafið undirbúningsaðgerðir til að geta brugðist við óskum um að hjálpa fólki út af svæðinu.