154. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2024.

Stefna stjórnvalda í vímuefnamálum.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst með fjármálaráðherrahattinn þá auðvitað hangir það saman við í hvað við setjum almennt fjármuni. Og þegar ég tala um skýra forgangsröðun og að við ættum að einfalda efnahagsreikning ríkisins og að við ættum að losa okkur undan rekstri á eignum sem ríkið þarf ekki að sjá um þá er það undirliggjandi markmið að við séum betur í stakk búin til að forgangsraða í þágu þess sem ríkið á að tryggja að sé gert. Það er til að mynda þetta verkefni. Og þetta segi ég þá þannig að það snúist ekki eingöngu um að ríkið geri það heldur að tryggt sé að því sé sinnt, vegna þess að við finnum líka þennan gríðarlega mikla vilja og metnað og skapandi nálgun einstaklinga þarna úti, alls konar úrræði sem við eigum líka að vera óhrædd við að hleypa að til að geta þjónustað þá einstaklinga sem á því þurfa að halda. Og hvað segir það okkur að það sé upplifun aðstandenda að fangelsin grípi fyrr heldur en önnur úrræði? Það er hluti af því hvernig viðhorf okkar eru og hvernig regluverkið er þegar kemur að fólki sem er (Forseti hringir.) til að mynda í neyslu. Því myndi ég vilja breyta og ég held að við sem samfélag (Forseti hringir.) værum betur stödd ef við leyfðum okkur að tala um það eins og það er.