154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

fjarvinnustefna.

38. mál
[11:37]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er það þannig að aðstæður eru ólíkar innan Íslands og síðan er það líka þannig að aðstæður Íslands og Finnlands er ekkert að öllu leyti sambærilegar. Finnland hefur hins vegar verið leiðandi í fjarvinnu og þeir hafa getað gert það, eins og ég nefndi, vegna þess að innviðir og uppbygging þar hefur beinlínis stutt við það. Það eru eflaust mismunandi aðstæður líka milli Íslands og Finnlands og reynsla þeirra getur ekkert að öllu leyti átt við um okkar en ég nefndi hana sérstaklega af því að mér finnst þetta svo gott dæmi um að þegar það er skýr og fókuseruð stefna sem horfir á þessa aðgerð dálítið heildstætt þá verður árangurinn góður. Ég held því að svona úttekt sé algjör forsenda þess að hægt sé að fara í þetta. Svo margt í okkar byggðaaðgerðum hafa verið góðar hugsanir sem hafa síðan í framkvæmd ekki náð fram markmiðum sínum. Það er auðvitað þannig að þetta á ekki við í öllum störfum, þetta á ekki við í öllum atvinnugreinum. Þetta getur átt stórkostlega vel við varðandi atvinnustarfsemi í einu bæjarfélagi en ekki í öðru. En mér finnst bara það að þetta passi ekki öllum ekki vera ástæða til þess að við skoðum þetta ekki. Ég veit að þingmaðurinn er ekki að tala gegn tillögunni heldur er ég bara einlæglega sammála. Þess vegna held ég að það gætu verið mikil tækifæri í því að ráðherra fari í heildstæða úttekt. Ég get ekki séð að við náum fram einhverri raunverulegri byggðastefnu sem er ekki jafnframt atvinnustefna. Atvinnan er alltaf hjartað í byggðinni. Raunveruleg úttekt á því hver tækifærin geta verið fyrir ólíkar byggðir landsins, að við nýtum þá reynslu sem við höfum af fyrri byggðaaðgerðum, m.a. af störfum án staðsetningar, (Forseti hringir.) að við rýnum þetta út frá þörfum Íslands með kostum og göllum.