154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

almannatryggingar.

100. mál
[12:07]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, afnám búsetuskerðinga. Auk mín á þessu frumvarpi eru hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, eða þingflokkur Flokks fólksins í heild sinni.

„1. gr.

Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 1. mgr. skal ekki takmarka réttindi vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hlutaðeigandi nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu.

2. gr.

Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 2. og 3. mgr. skal ekki takmarka réttindi vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hlutaðeigandi nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151., 152. og 153. löggjafarþingi (44. mál) og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt en uppfært með tilliti til lagabreytinga á síðasta löggjafarþingi.

Réttur til almannatrygginga á Íslandi er skertur hafi hinn tryggði verið búsettur erlendis á milli 16 og 67 ára aldurs. Fjöldi fólks líður því skerðingar á lífeyri sínum vegna búsetu erlendis. Þessar skerðingar eru nú framkvæmdar óháð því hvort fólk á rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar þar.

Undanfarin ár hafa verið miklar deilur milli stjórnvalda og lífeyrisþega vegna búsetuskerðinga. Sú aðferð sem Tryggingastofnun hefur beitt við ákvörðun búsetuhlutfalls var borin undir umboðsmann Alþingis og taldi hann að aðferðin væri ólögleg. Þar að auki komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021 að óheimilt hefði verið að skerða sérstaka framfærsluaðstoð þar sem ákvæði í reglugerð ráðherra skorti lagastoð.

Eftir mikla baráttu eldri borgara samþykkti Alþingi vorið 2020 lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Þau lög veita öldruðum rétt á framfærslustuðningi sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris. Þessi viðbótarstuðningur er ætlaður þeim sem vegna búsetu sinnar erlendis eiga ekki rétt á fullum ellilífeyri. Þrátt fyrir að stuðningurinn veiti kærkomna aðstoð eru skilyrðin fyrir aðstoðinni ströng. Þar er til að mynda aftur komið á krónu á móti krónu skerðingu.

Vegna baráttu lífeyrisþega við stjórnvöld er nú búið að leiðrétta hlut margra sem liðu ólöglegar skerðingar árum saman. Eftir stendur þó að í fjölmörgum tilvikum viðgangast umfangsmiklar skerðingar á lífeyri almannatrygginga vegna búsetu lífeyrisþega erlendis. Auk þess fá þeir ellilífeyrisþegar sem fá greiddan viðbótarstuðning aðeins 90% af réttindum sínum. Til þess að réttlætið nái fram að ganga þarf að breyta lögunum.

Í 1. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um hvaða áhrif búseta lífeyrisþega erlendis hafi á rétt hans til ellilífeyris. Í 2. og 3. mgr. 24. gr. er fjallað um áhrif búsetu lífeyrisþega erlendis á rétt hans til töku örorkulífeyris. Samkvæmt ákvæðinu skal við ákvörðun réttindahlutfalls örorkulífeyris bæta tímabilum fram til ellilífeyrisaldurs að fullu við áunnin tryggingartímabil. Þannig getur einstaklingur sem hefur áunnið sér tiltölulega lítil lífeyrisréttindi hér á landi vegna stuttrar búsetu fengið greitt hærra hlutfall af lífeyri en ella eða jafnvel fullan lífeyri.

Sú reikniregla sem kemur fram í 1. mgr. 16. gr. laganna leggur til grundvallar að full réttindi til ellilífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Hafi viðkomandi búið hér á landi skemur en 40 ár á umræddu tímabili skerðast réttindi hans hlutfallslega í samræmi við það. Þessar búsetuskerðingar eru framkvæmdar óháð því hvort búseta viðkomandi erlendis veiti honum sams konar fjárhagsleg réttindi. Sams konar reglu er að finna í 2. mgr. 24. gr. að því er lýtur að örorku.

Í 59. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um að heimilt sé að semja á milli ríkja um hvernig skuli ákvarða réttindi fólks út frá búsetutíma. Ísland hefur gert slíka samninga við nokkur ríki og á milli EES-ríkjanna gildir sérstakur samningur sem kveður á um að réttindi glatist ekki vegna flutnings til annars EES-ríkis. Eftir stendur að fjöldi ríkja hefur ekki gert slíka samninga við Ísland. Sem dæmi getur það skert rétt til örorku ef viðkomandi hefur verið búsettur í Bandaríkjunum um árabil, þó svo að viðkomandi hafi fyrst verið metinn öryrki eftir að hafa flust aftur til Íslands. Í slíku tilviki á viðkomandi engan rétt á sambærilegum greiðslum erlendis frá og þeim sem hann missir. Þetta er ekkert annað en mismunun á grundvelli búsetu og fer á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er eitt að lífeyrir skerðist vegna lífeyrisgreiðslna erlendis frá, en þegar lífeyrir er skertur vegna þess eins að einstaklingur hefur um tíma verið búsettur í öðru landi þá er það ekkert nema mismunun.

Til að koma í veg fyrir slíka mismunun er lagt til að einungis verði heimilt að skerða réttindi almannatrygginga vegna búsetu þegar ljóst liggur fyrir að viðkomandi eigi rétt á og njóti sambærilegra réttinda erlendis frá vegna búsetu þar. Þannig yrði komið í veg fyrir grimmilegar búsetuskerðingar gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegar sem voru áður búsettir erlendis fengju 100% réttinda sinna en ekki 90%.

Það er einkennandi fyrir þetta frumvarp nú að ég tók eftir að það er þingskjal 100 og vonandi verður það vísbending um það að núna verði þetta samþykkt og við förum í það að greiða 100% og líka að það gildi nákvæmlega sömu reglur um þessa aðila og alla aðra ellilífeyrisþega á Íslandi. Það er óþolandi að við skulum vera með þannig kerfi að þetta skuli viðgangast, að það skuli viðgangast að við tökum einhvern ákveðinn hóp út og segjum við hann: Heyrðu, þú ert minna virði en allir hinir, þú færð bara 90% og þar sem þú ert enn þá líka minna virði en allir hinir færðu á þig krónu á móti krónu skerðingu. Krónu á móti krónu skerðing er grimmilegasta vopn ríkisvaldsins til að ýta fólki í sárafátækt og það er alveg með ólíkindum að eftir alla þá baráttu sem háð var hér til að koma böndum á þessa krónu á móti krónu skerðingu, helst að koma því burtu, hefur einmitt einungis tekist að minnka þessa krónu á móti krónu skerðingu í 65 aura á móti krónu, sem sagt skerðingin fór úr 100% niður í 65%. Sumir tala um að draga úr þeirri skerðingu sem er auðvitað algerlega fáránlegt vegna þess að þetta er svo grimmilegt að það gerir sér enginn grein fyrir því fyrr en hann lendir í og verður fyrir þessum skerðingum. Það virðist vera gjörsamlega undantekning hér á Alþingi að nokkur hafi orðið fyrir því að lenda í svona skerðingum og þeir einu sem hafa lent í þessu eru þeir sem hafa verið inni í almannatryggingakerfinu. Þess vegna segi ég eins og ég hef oft sagt: Þetta bútasaumaða kerfi, það þyrfti svo sannarlega að taka á því.

En það er eiginlega merkilegast við þetta líka ef maður fer inn á Tryggingastofnun og fer að kanna hvað sé í gangi þarna, hvað sé verið að búa til og ég ætla bara að lesa hérna upp það sem ég tók af heimasíðu Tryggingastofnunar núna bara rétt áðan:

„Full réttindi miðast við samtals 40 ára búsetu á Íslandi á tímabilinu 16–67 ára.“ — Þetta er um búsetuskyldu. — „Þegar búsetutími á Íslandi er styttri reiknast réttindi hlutfallslega miðað við búsetu. Ef búsetutími hjóna er mislangur er heimilt að miða réttindi beggja við búsetutíma þess sem hefur haft lengri búsetu á Íslandi.“ — Ókei, gott. — „Dæmi: Einstaklingur bjó erlendis í 20 ár á aldrinum 16–67 ára. Tíminn frá 16–67 ára er 51 ár. Hann hefur þá búið á Íslandi í 31 ár af 51 á ári á tímabilinu. 31 ár deilt með 40 gerir 77,5% búsetuhlutfall á Íslandi. Hann fær því 77,5% af fullum lífeyri.“

En það er ekki búið þar vegna þess að síðan setja þeir inn fátæktarvara. En áfram:

„TR aðstoðar þá sem hafa starfað innan EES-landa við að sækja um ellilífeyri frá viðkomandi landi. Umsókn um lífeyri frá öðru EES-landi er að finna á Mínum síðum eða á tr.is.“

Síðan kemur félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða:

„Einstaklingur sem er 67 ára eða eldri með engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum og með tekjur“ — takið eftir því — „undir 283.972 kr. á mánuði getur átt rétt á félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða.“

Getur átt rétt á félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða. Hvers lags kerfi erum við að búa til og höfum viðhaldið? Þetta er nýlegt dæmi um það hvernig við getum hagað okkur og þessi ríkisstjórn ber — þetta er sama ríkisstjórn og var á síðasta kjörtímabili og þá var þessi 90% búsetuskerðing sett inn og króna á móti krónu og þarna kemur alveg skýrt að þeir búa til eitthvert kerfi sem þeir vita að fólk er komið í sárafátækt en þá segja þeir: Við skulum hjálpa þeim aðeins vegna þess að þau geta þá — þurfa að niðurlægja þau, láta þau sækja um félagslegan viðbótarstuðning, láta aldrað fólk snúa sér til Tryggingastofnunar til að sækja um félagslegan viðbótarstuðning. Hvernig í ósköpunum er bara í fyrsta lagi hægt að detta þetta í hug og í öðru lagi að láta einhvern aldraðan einstakling sem er á síðustu árum ævi sinnar niðurlægja sig við svona framkvæmd? En höldum áfram. Það er ekki nóg með að þarna — „Hægt er að sækja um á Mínum síðum. Heimilt er að ákveða viðbótarstuðning í allt að 12 mánuði í senn og sækja þarf um að nýju þegar hann fellur niður.“

12 mánuði, það er eilíf píslarganga. Aftur og aftur þarftu að niðurlægja þig til að sækja um viðbótarstuðning af því að þú ert með tekjur undir 283.972 kr. Hver vill vera með tekjur undir 283.972 kr. og hver vill fara í röð á ársfresti til að sækja um þetta ótrúlega, rétt á félagslegum viðbótarstuðningi fyrir aldraða? Maður verður stundum algerlega kjaftstopp yfir því hvernig í ósköpunum í fyrsta lagi einhverjum dettur þetta í hug og í öðru lagi að það sé hægt að framkvæma svona hluti. En maður er hættur að verða hissa. Síðan áfram:

„Hver eru áhrif tekna frítekjumarka á viðbótarstuðning? Viðbótarstuðningur er tekjutengdur og almennt frítekjumark er 25.000 kr. á mánuði. Tekjur umfram frítekjumark dragast frá greiðslum. Frítekjumarkið nær ekki yfir greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.“

Flott. Jú, þeir búa þannig um hnútana að það sé alveg á hreinu að sá sem fær þetta eigi ekki nokkra möguleika á að koma sér úr fátækt, hvað þá sárafátækt. Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera með — og síðan kemur annað: „Hafa eignir áhrif?“ Þetta er líka almennt í kerfinu sem gerir mann alveg gjörsamlega orðlausan stundum en það sýnir, ég veit ekki hvort það á að segja þennan gálgahúmor þessarar ríkisstjórnar.

„Hafa eignir áhrif? Ef eignir í peningum eða verðbréfum eru meiri en nemur 4 milljónum kr. er ekki réttur til greiðslna.“

Það er alveg með ólíkindum. Við skulum taka sem dæmi ef einhver einstaklingur hefur verið á leigumarkaði eða eitthvað og er kominn á þennan aldur og ákveður að fara að safna sér fyrir íbúð eða útborgun í íbúð, ef hann bara myndi áætla að reyna það, það segir þarna bara berum orðum að hann á aldrei möguleika og hann á aldrei að geta það. Þetta á líka við um öryrkja. Það er alveg með ólíkindum að við skulum leyfa okkur að koma svona fram við veikt fólk og aldrað fólk, eins og það sé ekki fyrsta flokks borgarar, ekki annars, ekki þriðja flokks heldur hundraðasta flokks, bara síðastir í röðinni, að það sé hægt að gera allt þeim til bölvunar sem hægt er. Þeir finna bara upp einhverjar ótrúlegar tölur og segja við viðkomandi: Hei, ef þú ert að reyna að leggja fyrir af þeim litlu peningum sem þú færð, reyna eitthvað að bjarga þér, þá refsum við þér. Þú skalt vera í þinni eymd, í þinni fátækt, þinni sárafátækt, og þú skalt vera þar alveg sama hvað það kostar. Við setjum á þig krónu á móti krónu skerðingar og ef það dugir ekki til þá setjum við á þig að þú mátt ekki eignast nema 4 millj. kr. og þá tökum við þig alveg í gegn. Við erum að tala um, eins og ég horfi á þetta — 100% lífeyrir, sem sagt lægsti ellilífeyririnn sem við getum fundið, 100%, er í dag hvað, þegar búið er að taka skatt af því og skerðingarnar og annað þá er það ekki 283.000 heldur 293.000. Hverjum finnst spennandi að reyna að lifa á 293.000 kr. og vita það fyrir víst að ef þú færð einhverja krónu einhvers staðar annars staðar frá, skiptir engu máli hvaðan hún kemur, þá verður þú fyrir krónu á móti krónu skerðingu? Þú mátt ekki fá meira.

En síðan annað, getur viðkomandi sem er kominn í þessa búsetuskerðingu ferðast erlendis samhliða viðbótarstuðningnum? Greiðsla fellur niður ef dvalið er lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili, sem sagt þrjá mánuði. Átthagafjötrar. Af hverju gilda aðrar reglur um þessa einstaklinga en aðra íbúa okkar sem vilja vera erlendis? Af hverju erum við að segja ekki nóg, við erum búin að segja að þú fáir ekki 100%, þú færð bara 90%, þú færð krónu á móti krónu skerðingu, mátt ekkert eignast eitt eða neitt. Það dugir ekki til, þú mátt ekki einu sinni hafa meiri tekjur en 4 milljónir. Það dugir heldur ekki til vegna þess að þar er búið að refsa þér. En nú þarf líka að refsa þér, þú mátt ekki fara erlendis lengur en þrjá mánuði, þá ertu búinn að missa þetta.

„Tilkynna skal Tryggingastofnun fyrir fram um dvöl erlendis fyrir brottför sem og komu til landsins.“ Sem sagt: Þú þarft að láta Tryggingastofnun vita. Upplýsingaskylda. Ég er að fara erlendis, ég fer á þessum degi. Svo þegar þú kemur til baka verður þú að tilkynna ef þú ætlar ekki að verða fyrir búsetuskerðingu. Sem sagt, stóri bróðir fylgist með þér. Hver þarna úti myndi vilja láta koma svona fram við sig og hvers vegna í ósköpunum teljum við að við þurfum að koma svona fram við ákveðinn hóp fólks, bara vegna þess að það er aldrað, bara vegna þess að það eitthvað í kerfinu hefur valdið því að það er ekki að fá full réttindi bara vegna þess að það er veikt? Maður verður eiginlega einhvern veginn — og hérna stendur:

„Hverjir geta sótt um? Einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi og lífeyrisþegar með 90% réttindi eða meira í almannatryggingakerfinu.“

Maður verður einhvern veginn gjörsamlega gáttaður, vegna þess að bara til þess að upplýsa ykkur þá er lægsti ellilífeyririnn í dag 333.194 kr. fyrir skatt. Jú, jú, það er auðvitað hluti af fjárhagslega ofbeldinu að borga skatt af þessu, af þessum smánartekjum. Að við skulum vera með einhvern lágmarkslífeyri, lágmarksframfærslu, og við getum við ekki einu sinni haft hann skattlausan. Einhvern tímann heyrði ég þá fáránlegu staðreynd að það væri haft svoleiðis svo það væri ekki verið að niðurlægja fólk, það vildi vera stórt og geta borgað skatta. Þvílíkt kjaftæði. Það er verið að niðurlægja fólk með því að taka af því þannig og borga því ekki meira en það að það getur ekki einu sinni framfleytt sér. Við getum áttað okkur á að einstaklingur eða hjón sem eru með þessar lágmarkstekjur og þurfa að borga kannski, eins og við heyrum orðið í dag, 350.000–400.000 kr. fyrir smáíbúð í leigu — hvernig ástandið væri hjá þessum einstaklingum, þau hefðu ekki mikið afgangs til framfærslu.

Það má eiginlega segja að það sé skylda hér á þingi að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Það höfum við margoft heyrt hér í þingsölum. Er þetta að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld? Nei, ég held að ríkisstjórnin gæti snúið þessu við og sagt: Við ætlum að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld nema sumum. Við gætum líka heimfært þetta upp á annað, ríkisstjórnin gæti líka sparað sér, kannski með fjárhagslegu ofbeldi, ef það yrði sett á að allir sem væru yfir 170 cm væru skertir eða þeir sem væru rauðhærðir væru skertir.

Ég meina, af hverju í ósköpunum erum við að finna einhvers staðar í holur í kerfinu? Viðkomandi sem er aldraður er oft í verra standi heldur en — við verðum að átta okkur á því að við komum fram við fólk eins og, ég veit ekki hvernig á að orða það, sumir séu ekki með neinn rétt til jafnréttis. Það er í lagi að mismuna. Það er í lagi að skerða ákveðinn hóp. Tökum t.d. öryrkja sem verður 67 ára. Viðkomandi er kannski búinn að vera öryrki allt sitt líf og er með mikinn kostnað, læknisfræðilegan og lyfjakostnað og þarf mikla aðstoð. En hvað skeður þegar viðkomandi fer allt í einu yfir þetta bil, 67 ára aldur? Jú, þá þarf að refsa honum. Þá tekur ríkið ákvörðun: Ég ætla að refsa þessum manni fyrir þetta. Það er búið að refsa, hann er búinn að vera í fátækt og refsigildrum í almannatryggingum alla sína ævi en það dugir ekki til vegna þess að einhverra hluta vegna, þegar hann er kominn á ellilífeyri og þarf eiginlega meiri pening, nei, þá ætlar þú að refsa honum meira. Tökum af honum 30.000 kall. Hvers vegna? Jú, bara af því þeir geta það. En rökin fyrir því eru — af hverju að mismuna þessum einstaklingum? Ég hef t.d. lagt fram frumvarp um að aldurstengda örorkuuppbótin fylgi þegar viðkomandi verður 67 ára. Þá myndu þessir einstaklingar sleppa við þetta og líka að þá verði ekki þessir […]. Það þarf auðvitað, eins og við heyrum hérna, að taka þetta kerfi algjörlega, gjörsamlega í nefið, algjörlega upp á nýtt.

Við sjáum líka birtingarmynd í þessu öllu saman, eins og við vorum að berjast núna fyrir jólin og fengum frestað, þetta er þessi sami hugsanagangur, vegna þess að það eru 3.000 aðilar sem búa erlendis og einhverra hluta vegna þá allt í einu vakna Skatturinn, fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin og segja: Hey, það eru einhverjir að svindla þarna. Það eru einhverjir þarna úti, kannski einn eða tveir eða þrír, ég veit ekki einu sinni hvort það var einn, tveir eða þrír eða hvort það var yfir höfuð einhver, ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um það en þeim bara datt þetta bara í hug, töldu sig vera viss um að það væri eitthvað skrýtið í gangi, að það væri einhver sem væri að fá persónuafslátt á tveimur stöðum, erlendis þar sem hann væri búsettur og líka hérna heima. Einhverjar sannanir? Nei. En af hverju komu þeir ekki með þetta bara þá sem sérfrumvarp inn í þingið með staðreyndum? Af hverju kafaði ekki ríkisstjórnin ofan í málið og reyndi að finna út, og þá hlýtur Skatturinn að hafa verið þar undir, hverjir voru að svindla, finna þá, taka á þeim? Nei. Svoleiðis vinnur þessi ríkisstjórn ekki, vegna þess að hún ákvað bara: Heyrðu, við erum búin að finna hérna þessa blóraböggla. Það eru einhverjir að svindla, við bara sviptum allan þennan hóp eins og hann leggur sig persónuafslætti. Hvers vegna í ósköpunum gerðu þeir það? Jú, af því þeir gátu þetta. Þeir bara gátu það, og hvernig ætluðu þeir að gera það? Með því að lauma þessu inn í bandorminn, lauma þessu innan um einhvers staðar með óskiljanlegum orðlengingum sem enginn skildi. Sem betur fer náðum við í Flokki fólksins að átta okkur á hvað væri í gangi og gátum fengið þetta stoppað og hver er þá eftiráskýringin á þessu öllu saman? Jú, þeir áttuðu sig allt í einu á því eftir á að það þarf að skoða þetta, það þarf að átta sig á hvað er í gangi, það þarf að kortleggja hverjir þetta eru og hvað. Eins og við segjum: Þarna var búið að setja allan hópinn, 3.000 einstaklinga — þið eruð glæpamenn, við bara refsum ykkur öllum.

Þeir gera sér enga grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta hefði haft vegna þess að mínar upplýsingar eru að ef þetta hefði gengið yfir gæti liðið allt að ár hjá mörgum þeirra að fá leiðréttingu á þessu. 65.000 kr. á mánuði eru stór peningur fyrir þann hóp vegna þess að við verðum líka að átta okkur á því að þessi hópur, þegar hann er búinn að fara erlendis, er ekkert að fá háar bætur. Það er búið að taka allt af honum, þetta er strípað. Sumir verða að vera í þeirri aðstöðu að fara erlendis, verða að reyna heilsu sinnar vegna að komast til heitra landa. Þarna er fólk sem er veikt fólk að reyna að bjarga sér.

Af hverju er það mottó hjá þessari ríkisstjórn að refsa þessu fólki fyrir þetta? Það virðist alltaf vera gripið fyrst í refsivöndinn og síðan sagt eftir á: Ah, díses. Já, við hefðum kannski átt að skoða þetta betur. Það á líka við um þessar búsetuskerðingar. Á sínum tíma þegar þær komu inn í þingið benti ég strax á hversu ótrúlega ósanngjarnt þetta væri, að við skyldum vera að hérna að segja við — og búin að reikna að það þarf 333.000 kr. lágmarksellilífeyri, það er lágmarkið, en eftir skatta þá ertu kominn niður í 293.000 kr. og við skulum átta okkur á því þegar fyrst eru 10% tekin af þessu þá erum við komin í rétt um 300.000 og síðan hafa þeir fundið út þennan punkt, 283.000 kr. sem sýnir bara hvernig hvers lags einbeittur brotavilji þeirra er að við skulum vera með 283.972 kr. og tókst einhvern veginn að finna, ja, við skulum hjálpa þessu liði upp í 90% með því að fá félagslegan viðbótarstuðning en þau þurfa að sækja um það. Það þarf að niðurlægja fólk við að sækja um þetta. Ég barðist með kjafti og klóm fyrir þessu vegna þess að ég segi að ef við erum Íslendingar á annað borð og erum með íslenskt ríkisfang þá eiga að gilda um okkur öll sömu reglur þegar við verðum 67 ára og eldri. Við eigum ekki alltaf að vera að taka einhvern hóp út bara þegar hægt er að gera það og klekkja á honum. Þetta er illa gert.

En því miður, það verður bara að segjast alveg eins og er að þessi ríkisstjórn sem er núna og ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa slegið hver annarri við í lágkúru við að níðast á fólki sem er í þessu almannatryggingakerfi. Við munum fyrir ekki svo löngu þegar hrunið varð að þá var tekið 10% af línunni, ellilífeyrisþegar og öryrkjar og almannatryggingaþegar fengu 10% minna. Þá var fullyrt að það yrði fyrsta verk þeirrar ríkisstjórnar þegar betur áraði að leiðrétta það en það var aldrei leiðrétt. Kjaragliðnun þessara hópa lengdist og lengdist og lengdist. Við sjáum það í þessu og öðrum frumvörpum að þetta kerfi okkar er ónýtt. Almannatryggingakerfið er gjörsamlega ónýtt. Þetta er bútasaumað skrímsli og þetta á ekki að eiga sér stað. En jú, það er á ábyrgð þeirra stjórnmálaflokka sem hafa verið við völd undanfarin ár; Samfylkingar, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Þau byggðu þetta kerfi upp. Þetta er þeirra barn. Þau hafa viðhaldið þessu kerfi. Þau næra það með svona ógeðslegum hlutum þar sem þau reyna að mismuna fólki um það bara að þau geta mismunað fólki og gera það með 10% lægri lægstu ellilífeyrisgreiðslum, krónu á móti krónu skerðingar tóku þau upp aftur, mega ekki eiga meira en fjórar milljónir, þurfa að niðurlægja sig við að sækja um félagslega aðstoð. Þetta eru skilaboð til aldraðra og þetta þarf að stöðva.