154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[12:50]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi og er nú lagt fram efnislega óbreytt en með frumvarpinu er lagt til að framvegis verði óheimilt að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda. Í því felst að eftir gildistöku slíkra laga yrði óheimilt að veita neytendum lán með skilmálum um verðtryggingu miðað við hvers konar verðvísitölu, svo sem neysluverð, gengi gjaldmiðla eða hlutabréfa. Að sama skapi er lagt til að úr lögum um neytendalán, nr. 33/2013, og lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, verði felld brott ákvæði sem gera ráð fyrir slíkri verðtryggingu, enda yrðu þau þá óþörf eftir sem áður yrði. Áfram yrði heimilt að breytilegir vextir óverðtryggðra lána til neytenda taki mið af opinberum viðmiðum eða vísitölum að því leyti sem gert er ráð fyrir í viðkomandi lögum.

Meðflutningsmenn mínir eru Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, öll úr Flokki fólksins.

Um langt árabil hefur verið hávær krafa í samfélaginu um afnám verðtryggingar lána til neytenda og margar viðhorfskannanir sýnt fram á víðtækan stuðning við þær kröfur. Ýmsir sérfræðingar hafa verið fengnir til að gera skýrslur og sérfræðingahópar verið skipaðir til að fjalla um málefnið. Þá hafa ítrekað verið lögð fram frumvörp um að afnema eigi eða setja skorður við verðtryggingu með ýmsum hætti sem ekki hafa náð fram að ganga þrátt fyrir að slík markmið hafi margoft komið fram í stjórnarsáttmálum fyrri ríkisstjórna.

Markmið frumvarps þessa er að stöðva veitingu verðtryggðra lána til neytenda og taka afgerandi skref í átt að fullu afnámi þess lánafyrirkomulags. Ekki er gert ráð fyrir að sú breyting hafi afturvirk áhrif en að eldri verðtryggð lán muni þó með tímanum hverfa úr umferð jafnvel þótt ekki kæmi annað til en eðlilegar uppgreiðslur þeirra. Þar sem kveðið er á um heimildir til verðtryggingar með lögum er ekki önnur leið fær að settu marki en sú að breyta þeim lögum til að girða fyrir veitingu verðtryggðra lána til neytenda.

Nú er það svo að í félagsmálaráðuneytinu liggur skýrsla sem ekki fæst birt. Flutningsmaður skýrslubeiðninnar var Þórunn Egilsdóttir heitin, þingkona Framsóknarflokksins, en auk hennar voru átta þingmenn úr fimm flokkum á beiðninni. Þar sem erfitt reyndist að afla gagna frá opinberum stofnunum við vinnslu skýrslunnar dróst vinna við hana, sem lauk í júní 2021, en hún fékkst samt ekki birt fyrir kosningar þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir Hagsmunasamtaka heimilanna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var það fyrst eftir kosningar sem Hagsmunasamtökum heimilanna barst loks svar sem efnislega sagði að þar sem beiðnin hefði komið fram á kjörtímabilinu á undan yrði skýrslan ekki birt á þessu kjörtímabili.

Skýrslan var unnin af Ólafi Margeirssyni hagfræðingi og Jacky Mallett, dósent við Háskólann í Reykjavík. Sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna hef ég þessa skýrslu undir höndum og á henni hvílir ekki trúnaður. Eftir að samtökin hafa gert það sem í þeirra valdi stendur til að fá hana birta án árangurs er ástæða til að vitna í hana hér enda er í henni kafli sem heitir: Áhrif verðtryggingar á hagkerfið og heimilin. Ég tel hann eiga fullt erindi til almennings. Kannski það sé ástæðan fyrir tregðunni við að birta skýrsluna.

Í skýrslunni sem ekki fæst birt útskýrir hagfræðingurinn, dr. Ólafur Margeirsson, að verðtryggð lán séu lán með neikvæðri afborgun því höfuðstóll lánsins hækki eftir hverja afborgun lengi framan af lánstímanum í stað þess að lækka. Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Lán með neikvæðri afborgun eru bönnuð vegna neytendaverndarsjónarmiða í 25 ríkjum Bandaríkjanna, einkum vegna þess að þau flokkast undir ræningjalán eða „Predatory lending“ og eru í raun aðeins viðeigandi fyrir lántaka sem eru agaðir og fjárhagslega mjög vel að sér ásamt því að hafa óreglulegar tekjur.“

Ég vek sérstaklega athygli á orðinu ræningjalán. Hann heldur svo áfram og skrifar:

„Slík íbúðalán eru þannig flokkuð í Bandaríkjunum sem lán sem geri það ólíklegra en ella að lántakinn geti staðið undir kostnaði vegna þeirra og eru þau talin hafa ýtt undir undirmálslánakrísuna sem varð að fjármálakrísunni 2008 í Bandaríkjunum.“

Opinberar stofnanir og félagasamtök í Bandaríkjunum hafa sérstaklega varað lántaka við slíkum lánum og ráðlagt að taka ekki slík lán.

Áfram segir:

„Slík lánaform eru einnig bönnuð í Sviss á lánum til neytenda og í Svíþjóð hefur þarlent fjármálaeftirlit gert kröfu um að eiginleg afborgun svo að höfuðstóll lækki eigi sér stað á öllum nýjum íbúðalánum, m.a. til að auka fjármálalegan stöðugleika. Íbúðalán með neikvæðri afborgun eru ekki til í Bretlandi.“

Ef við drögum saman það sem Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, er að segja í þessum stutta kafla eru verðtryggð lán flokkuð sem ræningjalán, sem er ólíklegt að lántaki geti staðið undir kostnaði við. Svona lán eru talin hafa ýtt undir fjármálakrísuna í Bandaríkjunum þar sem opinberar stofnanir og félagasamtök vara sérstaklega við þeim. Einnig kemur fram að verðtryggð lán til neytenda eru hreinlega bönnuð í Sviss, Svíþjóð og Bretlandi, auk þess sem það er staðreynd að þau eru hvergi í heiminum í boði fyrir neytendur nema á Íslandi og í Chile.

Nú vilja sumir meina að það sé í lagi að verðtryggð lán hækki því að húsnæðisverðið hækki hvort eð er líka og þannig verði eignamyndun. Ég er algjörlega mótfallin þessari röksemdafærslu af ýmsum ástæðum. Þarna kristallast ólík staða þeirra sem taka verðtryggð og óverðtryggð lán. Þeir sem taka óverðtryggt lán horfa á eignarhlutinn sinn aukast, ekki bara vegna hækkandi fasteignamats heldur líka þótt fasteignamatið standi í stað. Eignamyndun þeirra sem eru með verðtryggð lán verður hins vegar hlutfallslega engin nema fasteignaverð hækki óhóflega mikið, eins og við erum reyndar búin að vera að horfa upp á undanfarið, en þá skilar það sér líka til hækkunar á verðtryggðum lánum í gegnum húsnæðislið vísitölunnar. Afborgun þeirra sem eru með verðtryggð lán hækkar jafnt og þétt í gegnum lánstímann og verður sífellt hærra hlutfall af tekjum þeirra á meðan afborganir þeirra sem eru með óverðtryggt lán sveiflast vissulega vegna breytilegra vaxta en verða samt sífellt lægra hlutfall af tekjum eftir því sem líður á lánstímann. Það er líka gríðarlega vafasamt hagkerfi sem gerir ráð fyrir að fasteignaverð verði að hækka til að einhver eignamyndun verði hjá stórum hluta fasteignaeigenda. Slík forsenda er einfaldlega ávísun á fjármálaóstöðugleika.

Í skýrslunni segir dr. Ólafur Margeirsson um þetta:

„En að treysta nægilega hækkun húsnæðisverðs er hættulegur leikur sem ekki gengur til lengdar og allra síst kerfislega. Rétt er að muna að slík fjárhagsleg uppbygging kallast spákaupmennskufjármögnun eða jafnvel Ponzi-fjármögnun í fræðunum um fjármálalegan stöðugleika. Það er vel þekkt innan fræðanna um fjármálalegan stöðugleika að því meira áberandi sem spákaupmennsku- og Ponzi-fjármögnun er í hagkerfinu því næmari er það fyrir fjármálalegum óstöðugleika og því líklegra er að innan þess þróist innbyggðir ferlar sem ýta hagkerfinu öllu í átt að fjármálakrísu.“

Þetta eru gríðarlega alvarleg orð.

Til að fara nánar í þetta þá er ljóst að þegar greiðslumat miðast bara við fyrstu afborgun lána verður til ákveðinn freistnivandi þannig að lántakendur, af meðfæddri bjartsýni eða vanþekkingu á eðli verðtryggðra lána, ætli sér um of og kaupi dýrari eignir en annars sem kallar á enn hærri lán. Það getur verið í lagi ef húsnæðisverð hækkar nægilega hratt til að lántakinn geti selt húsnæðið og greitt lánið ásamt uppsöfnuðum kostnaði til baka og bjargast úr stöðunni sem of mikil skuldsetning kemur honum í. En það er nákvæmlega það sem Ólafur er að vara við sem hættulegum leik.

En hver ber í raun sök á þeim leik þegar verðtryggð lán hafa í áratugi verið helsta lánsformið á Íslandi? Hver ber í raun ábyrgð á því að á tímum verðbólgu og vaxtahækkana sé þeim teflt fram sem lausn, bæði af fjármálaráðherra og seðlabankastjóra? Hver ber ábyrgð á því að venjulegu fólki hafi í tugþúsunda tali verið talin trú um að lán sem eru í raun kölluð Ponzi-fjármögnun séu góð lausn fyrir það til að koma sér þaki yfir höfuðið? Ég hafna því að ábyrgðin sé neytanda. Hér verða stjórnvöld og stjórnmálamenn til margra ára að axla sína ábyrgð.

Dr. Ólafur Margeirsson fjallar svo í fyrrnefndri skýrslu um afleiðingar þessarar spákaupmennskufjármögnunar og segir:

„Aukinheldur leiðir þetta til þeirrar stöðu að húsnæðisverð er, vegna stöðu lána með neikvæðum afborgunum í kerfinu, of hátt fyrir flesta lántaka sem vilja taka öruggari lán, þ.e. lán sem ekki eru með neikvæðum afborgunum. Því neyðast flestir lántakar til að taka verðtryggð lán, þ.e. lán með neikvæðum afborgunum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Vinsældir óverðtryggðra lána, þ.e. lána sem eru ekki með neikvæðum afborgunum síðla árs 2020, þegar vaxtastig hafði lækkað í kjölfar vaxtabreytinga Seðlabankans, sýnir það ágætlega hversu óvinsæl verðtryggð lán í raun eru, jafnvel þótt svo margir lántakar hafi tekið þau í gegnum tíðina. Fólk sem neyðist til að taka verðtryggð lán, þ.e. lán með neikvæðum afborgunum til að fjármagna kaup á fasteign, er ekki að sýna val sitt á lánshæfi lánakostum í verki.“

Hér ræðir Ólafur um hringrásarmyndun þar sem hver þáttur bítur í skottið á öðrum. Staðreyndin er sú að vegna fjölda verðtryggðra lána hækkar húsnæði meira en annars, sem aftur leiðir til þess, þar sem laun hækka ekki endilega í sama hlutfalli, að fleiri neyðast til að taka verðtryggð lán sem svo aftur veldur frekari hækkun húsnæðis. Það er í raun augljóst, þegar maður veltir því fyrir sér, að verðtryggð lán myndu aldrei ganga upp nema húsnæðisverð hækki stöðugt því að lánin hækka stöðugt.

Núverandi seðlabankastjóra, Ásgeiri Jónssyni, er vel kunnugt um annmarka verðtryggðra lána og neikvæð áhrif þeirra á eitt helsta stýritæki Seðlabankans, vaxtahækkanir sem í raun virka illa eða alls ekki í hagkerfi þar sem verðtryggð lán til neytenda tíðkast í miklum mæli. Og ég er ansi hrædd um að við séum að horfa upp á beinar afleiðingar þess. Árið 2012 skrifaði seðlabankastjóri:

„Verðtrygging þvælist fyrir framgangi peningamálastefnu Seðlabankans, einkum þó leiðni stýrivaxta yfir til langtímavaxta og færa má rök fyrir því að aukið vægi nafnvaxta gæti aukið árangur við framfylgd verðbólgumarkmiðs og skapað heilbrigðari miðlun peningamálastefnunnar í litlu opnu hagkerfi eins og hinu íslenska.“

Í ljósi þessara orða seðlabankastjóra eru harkalegar vaxtahækkanir Seðlabankans undir hans stjórn á undanförnum mánuðum ákaflega sérstakar, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Verðtryggð lán hafa gríðarlega neikvæð áhrif á hagkerfið allt. Hagfræðingurinn Hyman Minsky, sem varð frægur í kjölfarið á hruninu 2008, skiptir lántakendum í þrjá flokka. Án þess að ég fari nánar út í þá flokkun voru það öruggir lántakendur, sem heimfært upp á íslenskan veruleika eru þeir sem taka óverðtryggð lán; spákaupmennskulántakendur sem mætti hugsanlega heimfæra upp á þá sem taka blönduð lán og svo í þriðja lagi Ponzi-lántakendur og lýsingin á þeim hópi samsvarar lýsingu á eðli verðtryggðra lána. Niðurstaða Minskys var:

„Því hærra sem hlutfall Ponzi- og spákaupmennskulántakenda er í hagkerfinu því minni viðnámsþrótt hefur það gegn innri sem ytri áföllum og því líklegra er að fjármálakrísa myndist í því. Lántakendur sem taka lán með neikvæðum afborgunum, þ.e. verðtryggð lán, eru dæmi um spákaupmennskulántaka því að þeir borga ekki allan samningsbundinn kostnað um leið og hann á sér stað.“

Ég vona að þessi skýrsla fáist birt sem fyrst og ég skora á núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, að hann sjái til þess að hún komi fyrir almenningssjónir. Ég held að við hefðum öll gott af því að lesa hana, ekki síður núna en þá í ljósi þess sem við erum að ganga í gegnum núna í verðbólgu og brjálæðislegum ofurvöxtum sem kannski eiga sinar skýringar m.a. í háu hlutfalli verðtryggðra lána á Íslandi.

Niðurstaða þessa kafla skýrslunnar er eftirfarandi með skírskotun til spurningarinnar sem lögð var fram í skýrslubeiðninni um áhrif verðtryggingar lána heimilanna á heimilin og hagkerfið — dr. Ólafur Margeirsson segir m.a.:

„Þegar kemur að áhrifum verðtryggingar lána heimilanna á hagkerfið má benda sérstaklega á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Verðtryggð lán, líkt og önnur lán með neikvæðum afborgunum, auka hættuna á fjármálalegum óstöðugleika vegna aukins hlutfalls spákaupmennsku lántaka meðal lántaka í hagkerfinu.

Í öðru lagi: Verðtrygging á lánum heimilanna þvælist fyrir peningastefnu Seðlabankans og kemur í veg fyrir að hún virki fljótt og vel á eftirspurn í hagkerfinu. Verðtrygging gerir þar með Seðlabankanum það erfiðara fyrir að ná verðbólgumarkmiði sínu.

Í þriðja lagi: Þar sem verðtrygging þvælist fyrir Seðlabankanum í tilraunum hans við að ná verðbólgumarkmiðinu þarf Seðlabankinn að beita stýrivaxtatæki sínu af meiri hörku en ef lán heimila væru óverðtryggð. Þetta þýðir hærra og óstöðugra vaxtastig en ef lán heimila væru almennt óverðtryggð.

Í fjórða lagi: Hærra og óstöðugra vaxtastig ýtir undir vaxtamunaviðskipti og gjaldeyrisbólur. Gengi krónunnar verður óstöðugri en ella vegna algengrar notkunar á lánum með neikvæðum afborgunum, þ.e. verðtryggingu.

Í fimmta lagi: Þar sem innflutt vara er mikið í neysluverðsvísitölunni leiðir óstöðugra gengi krónunnar til óstöðugri verðbólgu sem aftur hefur neikvæð áhrif á getu Seðlabankans til að hafa stjórn á verðbólguvæntingum og þar með verðbólgu. Verðbólga verður því óstöðugri og hærri vegna verðtryggingar á lánum heimilanna.

Í sjötta lagi: Verðtrygging ýtir einnig undir útlánagetu bankastofnana. Þar með myndast jákvæð afturvirkni milli verðbólgu og útlánagetu bankastofnana vegna verðtryggingar lána.

Það væri hagkerfinu mjög til trafala í framtíðinni, sem sjá má af upptalningunni hér að ofan og umfjölluninni áður, ef hlutur verðtryggðra lána aukist á ný. Til að koma í veg fyrir slíkt væri það þjóðhagslega hagkvæmt að takmarka mjög aðgengi og notkun slíkra lána, þar með talið að íhuga það í fúlustu alvöru að banna lánveitingar á slíkum lánum til einstaklinga.“

Svo mörg voru þau orð en af framansögðu má sjá að skaðinn sem verðtryggð lán valda heimilunum og hagkerfinu öllu er bæði víðtækur og alvarlegur.

Ég vek einnig sérstaka athygli á setningunni: Það væri hagkerfinu mjög til trafala í framtíðinni ef hlutur verðtryggðra lána ykist á ný. Það er einmitt það sem er að gerast núna vegna vaxtahækkana og kröfunnar um að greiðslubyrði lána fari ekki yfir 35% af ráðstöfunarfé.

Ein helstu rökin fyrir veitingu verðtryggðra lána eru annars vegar valfrelsi og hins vegar að sumir standist ekki greiðslumat fyrir öðru en verðtryggðum lánum þannig að þau séu sérstaklega fyrir þau verst stöddu. Mér hreinlega blöskrar sá málflutningur því að hann felur í sér það viðhorf að sá sem eigi lítið eigi aldrei skilið að eignast neitt eða losna einhvern tímann úr baslinu. Það er gríðarlega dýrt að vera fátækur en þó aldrei jafn dýrt og þegar kemur að því að vera neyddur í gildru óhagstæðasta lánsforms sem til er á jörðinni sem tryggir að þú komist aldrei í betri stöðu í lífinu.

Það sama á að sjálfsögðu við það að vera fastur í verðtryggðri leigu en leiga er bara ekki til umræðu í þessu frumvarpi. Ég vil þó nefna að verði verðtrygging afnumin á lánum heimilanna mun það að sjálfsögðu einnig gagnast leigjendum því að þá væri forsendan fyrir verðtryggðum leigusamningum hrunin. Við sem þjóðfélag hljótum að geta fundið mannúðlegri leiðir til að hjálpa fólki inn á húsnæðismarkað en að festa það í verðtryggðri gildru fátæktar um alla framtíð. Það væri t.d. hægt að minnka eiginfjárkröfur, enda er nær ómögulegt fyrir láglaunafólk á leigumarkaði að safna upp í þær. Staðreyndin er nefnilega sú að 100% lán væri bara allt í lagi svo lengi sem það er ekki verðtryggt. Einnig væri hægt að bjóða upp á lengri lánstíma í byrjun standist lántakandi ekki greiðslumat fyrir láni til 40 ára. 40 ára reglan þarf ekki að vera meitluð í stein. Það er hægt að bjóða upp á lengri tíma til að létta greiðslubyrði framan af, hugsanlega með endurskoðunarákvæði, þannig að eftir nokkur ár, eftir því sem hagur lántakanda vænkaðist, væri hægt að tína einhver ár af og auka greiðslubyrði aðeins þannig að þegar upp væri staðið væri endanlegur lánstími í raun 40 ár.

Það eru margar lausnir til, bara ef við erum tilbúin til að líta örlítið út fyrir rammann sem við höfum sjálf byggt í kringum okkur. Hann er mannanna verk en ekki ófrávíkjanlegt lögmál. Hvað varðar valfrelsi má líkja því við að verslanir og kaffihús byðu upp á eitraða drykki fyrir þá sem vildu á aðeins betra verði en þá óeitruðu svo að viðskiptavinir þeirra hefðu val um að segja nei. Viltu borga minna í byrjun en vakna með matareitrun í nótt?

Svo við komum aftur að frumvarpinu sjálfu þá er meginefni þess að óheimilt verði að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda. Með því er gert ráð fyrir að áhrif breytingarinnar muni ná til allra lána sem framvegis yrðu veitt samkvæmt lögum um neytendalán, nr. 33/2013, eða lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Með því að afnema heimild til verðtryggingar lána til neytenda yrði girt fyrir að fleiri slík lán yrðu veitt en eldri lánum sem eftir standa myndi fækka í tímans rás með uppgreiðslum á þeim. Þannig er hér um að ræða eitt skref af fleiri í nauðsynlegri endurskipulagningu á lánaumhverfi neytenda á Íslandi. Enn fremur þarf að skapa hvata og stuðning til að liðka fyrir því að heimili sem það kjósa geti breytt eldri verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán. Ákveðin skref í þá átt voru tekin með afnámi stimpilgjalda af lánum, lækkun á lántökugjaldi og öðrum kostnaði við endurfjármögnun lána. Lokaskrefið á þeirri vegferð er svo að koma böndum á sjálft vaxtastigið, einkum í húsnæðislánum, sem hefur einkennst af talsverðum sveiflum eða bara hreinum og klárum hækkunum.

Samþykkt frumvarpsins hefði einkum áhrif á tvo hópa, annars vegar lánveitendur á borð við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir og hins vegar neytendur, þ.e. almenning. Áhrifin á lánveitendur yrðu þau helst að þeir gætu ekki lengur veitt verðtryggð lán til neytenda. Til framtíðar myndu uppgreiðslur eldri verðtryggðra lána draga úr umfangi verðtryggðra útlána þeirra. Slík þróun er þegar hafin en fyrir um þremur árum var hlutfall verðtryggðra fasteignalána til neytenda komið niður í 75% og var um mitt ár 2022 komið undir 44%. Á sama tímabili hafa hrein ný verðtryggð útlán verið neikvæð vegna uppgreiðslu þeirra eða breytinga í óverðtryggð lán sem njóta sívaxandi eftirspurnar. Frumvarpið er til þess fallið að styðja við þessa þróun og stuðla að umbreytingu á lánaumhverfi íslenskra neytenda með því að hverfa frá verðtryggðu kerfi yfir í nafnvaxtaumhverfi. Áhrifin á neytendur yrðu m.a. þau að lánaskilmálar yrðu auðskiljanlegri og lánskjör gegnsærri. Þannig yrði samanburður á lánskjörum auðveldari sem gæti stuðlað að virkari samkeppni. Þá myndu neytendur losna við þann óstöðugleika í fjármálum heimila sinna sem leiðir af óvissu um hvað þau muni skulda á hverjum gjalddaga. Slík tilhneiging er reyndar nú þegar byrjuð að koma fram þar sem sú þróun hefur orðið að neytendur leita nú í stórauknum mæli í óverðtryggð lán. Er því jafnvel óvíst hvort samþykkt frumvarpsins hefði veruleg áhrif á fjármálamarkaði við þær aðstæður.

Samþykkt frumvarpsins hefði engin sérstök áhrif á stjórnsýslu ríkisins enda leggur það engar nýjar skyldur á herðar stjórnvöldum. Þvert á móti gæti það stuðlað að skilvirkara opinberu eftirliti með lánastarfsemi vegna minna flækjustigs í skilmálum lána til neytenda. Jafnframt væri það til þess fallið að gera peningastefnu Seðlabanka Íslands skilvirkari en mikil útbreiðsla verðtryggingar lánsfjár hefur verið talin hamla framgangi hennar.

Með samþykkt frumvarpsins yrði tekið afgerandi skref til að afnema verðtryggingu á lánamarkaði fyrir neytendur og koma á sambærilegu lánaumhverfi við flest önnur lönd þar sem lánsfé er einfaldlega verðlagt með vöxtum. Það myndi svo draga úr verðbólgusveiflum og skapa þannig forsendur fyrir lægri vöxtum en ella, neytendum til hagsbóta.

Ég bara skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að gera þetta, af hverju það er ekki löngu búið að afnema þennan dragbít á íslenskt efnahagskerfi. Ég bara næ því ekki.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég treysti því að það fái skjóta og vandaða umfjöllun.