154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:15]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir sína framsögu í þessu máli. Ég held að hún þekki það ágætlega og fleiri að afnám verðtryggingar hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið á dagskrá hjá mínum flokki, Framsókn. Við sjáum það líka núna að við erum að fara í annars konar útreikninga á vísitölunni. Sú breyting tekur gildi, að ég held, í byrjun mars. Það var margt áhugavert sem kom fram í ræðunni og margt sem ég get vel tekið undir. En það er eitt og annað sem kannski situr eftir, mörg stór orð sem voru höfð hér uppi. Það sem mig langar að vita og heyra frá hv. þingmanni er hvaða úrræði hún sér til handa ákveðnum hópum. Við getum tekið sem dæmi ungt fólk, tekjulágt fólk, fólk sem er jafnvel nýkomið úr námi, hvernig hún sér fyrir sér að þessir hópar, þessir einstaklingar, þetta fólk, komist inn á húsnæðismarkaðinn. Er hún með tillögur að einhverjum leiðum hvað það varðar? Við þekkjum það vel að besta tækið sem við höfum í þessu er bara ábyrg efnahagsstjórn, lágir vextir. Þá gerist það í raun og veru, ég ætla að leyfa mér að setja það innan gæsalappa, „sjálfkrafa“ að fólk fer í óverðtryggðu lánin frekar en verðtryggðu lánin. En svo eru einfaldlega ýmsir ytri þættir sem geta haft áhrif á þetta og lyft upp vaxtastigi og það hefur þær afleiðingar að afborganir á óverðtryggðum lánum verða mikið mun hærri en af verðtryggðum lánum, þó að ég sé ekki að mæla þeim neina bót. Það væri áhugavert að heyra um þetta. Ræða þingmannsins var löng en mér finnst kannski þetta vanta, hvernig við ætlum að leysa vandann hjá þessum hópum og koma þeim inn á markaðinn þegar ástandið er eins og við þekkjum í dag.