154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:18]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Lausnin er einfaldlega að afnema verðtrygginguna vegna þess, eins og ég fór í gegnum í ræðunni, að með afnámi hennar þá neyðast bankar t.d. til að lækka vexti. Bankar búa til peninga með útlánum og ef fólk hefur ekki efni á að taka lán hjá þeim af því að vextir eru of háir þá þurfa þeir að lækka vextina. En á meðan þeir eru með verðtrygginguna sem svona hliðarafurð — ef við bara tökum ástandið sem er núna þá væri ekkert hægt að hafa svona hátt vaxtastig ef ekki væri verðtryggingin. Í dag er enn þá sagt: Vanskil í bönkum eru næstum því ekki nein. Það er af því að fólk flýr yfir, er neytt yfir í verðtryggðu lánin, en það mun borga það dýrum dómi síðar. Það eru alltaf til lausnir. Verðtrygging er ekki til í neinum af þeim löndum sem við berum okkur saman við, ekki neinu þeirra. Hvernig fer fólk að því að komast inn á húsnæðismarkað þar? Það gerir það með því að fara í bankann sinn og taka lán á skaplegum vöxtum. Annað er að við erum með verðtryggingu á lánum neytenda. Hún á að vera, við skulum alltaf taka það fram, á milli fagfjárfesta og milli fagfjárfesta og ríkis. Hún á að vera þar. En á meðan hún er á lánum til neytenda þá hafa stofnanir eins og bankar og þeir sem ráða yfir fjármagninu í landinu engan hag af því nokkurn tímann að halda verðbólgunni niðri og þeir hafa gríðarleg áhrif á hana. Ef við myndum afnema verðtryggingu á lánum neytenda og hún væri á þessum lánum sem þeir eru sjálfir að taka sín á milli myndu þeir hafa mikinn hag af því að halda verðbólgunni niðri.

Og hvað varðar ábyrga efnahagsstjórn: Ég er enn þá að bíða eftir henni.