154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að ég er ekki sannfærður um það. Jú, það gæti verið að að einhverjum hluta myndi þetta vandamál hverfa en ég er alveg með það á hreinu að það kæmu mörg önnur vandamál í staðinn. Í sjálfu sér er ástandið ekkert mjög glæsilegt í Evrópusambandinu. Þetta eru svo gjörólíkar þjóðir, þær sem eru syðst við Miðjarðarhafið og síðan Þjóðverjar og Frakkar. Það eru gífurlegar deilur innan þessa sambands. Ef við, þessi örlitla þjóð, færum þarna inn yrðum við gjörsamlega kramin af þessu skrifbákni. Við erum enn að glíma við EES-reglur sem streyma til okkar og við þurfum auðvitað að fara að spyrna við fótunum. Það er ekki bara spurning hvort við förum í Evrópusambandið eða ekki, það er kominn tími til að við spyrnum á móti Evrópusambandinu hvað það varðar að þeir geti dælt yfir okkur alls konar reglum sem koma okkur í sjálfu sér ekkert við og hafa ekki einu sinni gildi hérna. Við erum t.d. ekki með lestir og við erum eyja og samt eru þeir að reyna að troða því inn í okkur að við séum hreinlega föst við meginlandið.