154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

aðgerðir varðandi fíknisjúkdóma og geðheilbrigðismál.

[15:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Við ræðum þetta allt of sjaldan. Þetta er víðfeðmur málaflokkur og snertir mjög margt í okkar þjónustu og okkar þjónustukerfum. Ég vil draga fram jákvæða hluti sem hafa verið að gerast, til að mynda skipulagsbreytingar og ótrúlega útsjónarsemi og nálgun á að efla og skerpa á þjónustunni hjá starfsfólki BUGL þar sem hefur tekist mjög vel að ná niður biðlistum og efla þjónustuna og ég hrósa þeim fyrir það. Svo verðum við alltaf að horfa inn í tiltekin mál og sjá hvað fer úrskeiðis og hvað við getum gert betur. Það er þannig sem þetta virkar. Ég vil líka nefna að í vímuefnavörnum erum við búin að taka upp stóran og breiðan samráðsvettvang í því að efla vímuvarnir og efla stefnumótunina og uppfæra hana. Við erum líka að vinna í samráði við aðila um að efla viðhaldsmeðferðir, (Forseti hringir.) fjölga þeim og afeitrunarplássum — sem hefur komið í ljós í miklu samráði við aðila. Við erum búin að setja skaðaminnkunarhóp af stað. (Forseti hringir.) Svo er ég með grænbókarvinnu núna sem snýr að öllu þessu umhverfi sem snýr að ADHD-málum.