154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

breytingar á löggjöf um hælisleitendur og aðstoð við fólk frá Gaza.

[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í umræðu um hælisleitendur frá Gaza hefur hæstv. utanríkisráðherra verið mjög afdráttarlaus undanfarna daga eða var það og sagði ítrekað og á mjög skýran hátt að það kæmi ekki til greina að fara í slíka aðgerð, þ.e. að sækja fólk á svæðið, enda væri um risaaðgerð að ræða nema áður væri búið að komast að niðurstöðu um einhverjar heildarbreytingar í hælisleitendamálum og í útlendingalöggjöfinni. Hæstv. ráðherra ítrekaði þetta og benti m.a. á að slíkt yrði rætt í ráðherranefnd um útlendingamál þar sem yrði farið yfir stöðuna í hælisleitendamálum í heild þannig að ákvarðanir í þessu efni verði teknar í samhengi við hvaða ráðstafanir verði gerðar til að beita löggjöfinni í heild til að taka á þeirri óstjórn sem hefur verið í málaflokknum.

Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra lýst því yfir og raunar hafið framkvæmd þess að sækja fólk á Gaza-svæðið. Því spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra: Hvaða breytingar fylgja þessu? Hvaða endurskipulagning á heildarlöggjöf um hælisleitendur og útlendinga hefur verið samþykkt til að gera hæstv. utanríkisráðherra kleift að skipta um skoðun að þessu marki frá því sem var fyrir fáeinum dögum síðan? Hvaða heildarbreytingu eigum við von á? Hvað hefur hæstv. ráðherra gefið eftir af því sem hann taldi áður e.t.v. óþarfa? Og einnig spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji ásættanlegt að stjórnvöld greiði hugsanlega mútur til að leysa fólk út af Gaza-svæðinu.