154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

áætlanir stjórnvalda til að tryggja orkuöryggi á Suðurnesjum.

[15:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefur hitnað undir okkur Suðurnesjamönnum í bókstaflegri merkingu að undanförnu en Suðurnesin eru þó ekki sérlega heitt svæði nú um stundir. Ástandið gefur tilefni til ýmissa orðaleikja þó að það sé grafalvarlegt. Grindvíkingar eiga við mikla erfiðleika að stríða og eru enn úti í kuldanum og við sem búum í hinum bæjunum á Suðurnesjum fengum að kenna á afleiðingum náttúruhamfaranna þegar heitavatnslaust varð á öllu svæðinu. Það er ekki þægilegt ástand þó að fullfrískt fólk þoli þetta, dúðað í föðurland og ullarpeysu í traustum húsum. Það var ástæða til að hafa áhyggjur af ungbörnum og eldra fólki sem býr eitt, en sem betur fer gætir öflug félagsþjónusta á Suðurnesjum að fólkinu. Pípulagningamenn svæðisins og aðrir iðnaðarmenn hafa lítið sofið um helgina og unnið hörðum höndum og enn streymir kvika upp undir Svartsengi og það mun gjósa aftur fyrr en seinna. Það er öruggt. Við vitum hins vegar ekki hvenær eða hvar kvikan brýtur sér braut en búsetuöryggi á öllum Suðurnesjum er undir.

Ég vil því spyrja hæstv. innviðaráðherra um áætlanir stjórnvalda sem á að keyra eftir núna dagana á milli gosa. Er ekki örugglega til slík áætlun? Hvað hefur verið gert eða verður gert til að fyrirbyggja það að íbúar svæðisins verði án rafmagns og vatns ef orkuverið í Svartsengi getur ekki skaffað slíkt eða flutningskerfi bresta? Hver mun stýra aðgerðum? Hver mun sameina krafta almannavarna, sveitarfélaga, HS Orku og HS Veitna? Er það hæstv. innviðaráðherra sem gengur í þau verk? Nú þegar allir þurfa að láta hendur standa fram úr ermum og ganga fumlaust til verks mega hæstv. ráðherrar ekki benda hver á annan, innviða, dóms, orku eða forsætis. (Forseti hringir.) Trúverðug áætlun þarf að liggja fyrir.