154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

áætlanir stjórnvalda til að tryggja orkuöryggi á Suðurnesjum.

[15:38]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni að það hefur verið unnin kraftaverkavinna, bæði verkfræðilega og bara af atorku síðustu sólarhringana á Suðurnesjum. Við hvað var verið að vinna? Jú, það var verið að vinna við þau plön sem var búið að setja. Plan A var auðvitað að byggja varnargarða í kringum Svartsengi. Plan B var kannski hluti af plani A því varnargarðarnir voru gerðir með þeim hætti að það var lögð lögn sem hafði reynt á sambærilega við Grindavík og hún þolað það. Þess vegna urðu það mikil vonbrigði að hún þoldi ekki hraunið. Það var til plan B, það var að leggja lögn yfir hraunið og sú vinna hefur gengið hraðar, held ég, en við höfðum öll væntingar til, sem er frábært og það er bara því fólki að þakka sem þarna var. Þannig að það er alltaf verið að vinna samkvæmt plani og það voru til fleiri plön ef þetta hefði ekki gengið.

Varðandi heildarmyndina, af því að það er rétt hjá hv. þingmanni að þegar svona náttúruvá er fyrir hendi þá vitum við auðvitað ekki nákvæmlega hvar gýs og hvar hraunið er, þá er þó búið að kortleggja það eins mikið og hægt er og þær sviðsmyndir teiknaðar upp. Varnaraðgerðir miðast við það. Þetta heyrir undir fjölmörg ráðuneyti og vinnan hófst auðvitað bara þegar eldgosin hófust. Þá var settur á laggirnar innviðahópur. Þetta varðar mörg ráðuneyti, margar stofnanir og marga hluti. Það er fyrst og fremst verið að skoða auðvitað orku og vatn og reyna að tryggja það og allar aðgerðir hafa miðast við það að hafa plan A, plan B og plan B eftir því hvaða atburður verður, hvar veikleikarnir koma fram eða skemmdirnar koma fram, svo hægt sé að bregðast við því.

Ég get kannski í síðara andsvari farið örlítið yfir þær aðgerðir sem eru akkúrat í gangi núna.