154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[16:10]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, það er auðvitað ákjósanlegt að við séum að takast á um þetta grundvallarmál í tengslum við aðgerðir í þágu Grindvíkinga, þetta málefni er eldra en svo, en auðvitað er það þörfin sem knýr á um þessar breytingar. Það bráðvantar framboð af almennu leiguhúsnæði og við vitum að það eru fleiri hundruð íbúða sem ættu með réttu að vera leigðar út til langtímabúsetu. Ráðherra minntist áðan á 1.907 leyfishafa eða leyfi sem útgefin hafi verið. Þær íbúðir sem um ræðir eru nokkru færri. En við skulum alveg hafa eitt á hreinu: Löggjafinn og framkvæmdarvaldið hafa mjög ríkar heimildir til að búa þannig um hnútana að atvinnustarfsemi í þessu landi þurfi að lúta einhverjum leikreglum. Löggjafinn og framkvæmdarvaldið hafa t.d. hagað málum þannig að atvinnustarfsemi greiðir tífalt lægri fasteignagjöld en hún ætti að gera. Þetta er allt í boði þessarar ríkisstjórnar. Og nú ætlar hún að missa af gullnu tækifæri til að leiðrétta mistök sín.

Það sem gerir þetta allt saman undarlegra er að hér er verið að gefa þeim sem langar til að falla undir fyrra fyrirkomulagið, fyrirkomulagið sem við erum að reyna að breyta, gálgafrest til að sækja um leyfi fram að gildistöku frumvarpsins, komi til þess að það verði samþykkt.

Hér erum við ekki bara að bregðast knýjandi þörf Grindvíkinga, við erum að bregðast sveitarfélögunum sem þurfa að geta beitt skipulagsvaldi sínu og hafa forræði á eigin byggðaþróun, fyrir utan það að heimild þeirra til að innheimta fasteignagjöld er í samræmi við raunverulega notkun húsnæðisins. Löggjafinn getur og á að bregðast við þegar hann sér fram á ójafnvægi á markaði og í samfélaginu öllu. Það er mikill misskilningur og ég vil bara biðja þingheim og samfélagið í heild sinni um að taka því með miklum fyrirvara þegar vísað er í það hér að stjórnarskráin geri okkur ekki kleift að breyta afturvirkt, að heimila sveitarfélögunum að kalla til baka þessi ótímabundnu leyfi sem hafa verið gefin út. Það eru til alls konar leiðir. Þær eru svo sannarlega til. Það er skylda samkvæmt stjórnarskránni að jafna leikinn.