154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[16:13]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að hér er verið að taka á ákveðnum ágöllum í þeirri reglugerð og þeim lögum sem við voru höfð fyrir þetta frumvarp, þannig að ég held að hv. þingmaður hljóti nú að virða það að hér er verið að taka skref fram á við í því að til framtíðar er í fyrsta lagi verið að auka framboðið. Í öðru lagi þá heimilar þetta frumvarp að sjálfsögðu að þegar búið er að gera þessar breytingar þá fer auðvitað þessi atvinnustarfsemi í réttan flokk varðandi skattlagningu. Þannig að ég hafna því að sjálfsögðu alfarið að ekki sé verið að taka á því í þessu frumvarpi, eins og mátti mögulega skilja orð hv. þingmanns.

Í þriðja lagi vil ég nefna það að þetta eru ekki einu aðgerðirnar sem við erum að fara í varðandi heimagistingu. Við erum að fara í aukið samstarf með sýslumanninum til að auka eftirlit með heimagistingu hér á höfuðborgarsvæðinu og víðar og hvetja til þess að það sé allt uppi á borðum hvað það varðar. Við höfum áður farið í svona samstarf og það hefur skilað mjög miklu. Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því varðandi þetta fyrirkomulag að samkvæmt höfðatölu er mjög mikið af íbúðarhúsnæði í heimagistingu. Þessi starfsemi hefur verið nokkuð áberandi og þess vegna erum við að taka á henni og ég tel að það sé mjög jákvætt. Eins og ég hef sagt áður þá erum við líka að fara að kynna frekari aðgerðir til þess að efla framboðshliðina.

Svo vil ég líka nefna að eftir að Hagstofan leiðrétti sínar tölur um mannfjölda þá er þessi skortur á framboði aðeins búinn að minnka, sem er auðvitað ágætt. Það má líka geta þess að það hefur komið í ljós að hagvöxtur á hvern einstakling er talsvert hærri en margir höfðu áhyggjur af.