154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[16:29]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Eins og ég segi, þetta er bara risastór umræða. Hún á það líka alveg skilið, hún er stór. Við ætlum að breyta miklu hér. Ég fagna því að við deilum þeirri sýn sem við viljum sjá í lögunum, ég geri það svo sannarlega og ég held að það sé þverpólitískur vilji til að breyta þessu til frambúðar.

Ég get hins vegar ekki annað en sagt og fullyrt hér og nú að það að breyta rekstrarskilyrðum, starfsskilyrðum einstakra atvinnugreina af hálfu löggjafans er ekki fordæmalaust í íslensku samfélagi. Um ákveðnar atvinnugreinar ríkja bara mjög þröngar reglur, hvort sem er í landbúnaði, sjávarútvegi, á öldurhúsum bæjarins, leigubílastarfsemi. Það er nú aðeins búið að fenna yfir þetta þegar ég fer yfir þetta í snatri. En við erum sannarlega í stakk búin til að gera sveitarfélögunum kleift, ekki skylda þau nota bene — sjálfstjórn sveitarfélaga er líka mjög ríkur hluti af stjórnarskrá, það er kveðið á um það í henni. Þau eiga að hafa völd, tæki og tól til þess að leggja fram ákveðnar breytingar á sínu skipulagsvaldi. Ég veit að sú ráðgjöf sem hæstv. ráðherra hefur fengið er auðvitað bara á breiðu nótunum og ég ætla ekkert að krefjast einhverra konkret svara nákvæmlega um það hér og nú — eða jú, ég er reyndar að því — en við erum samt sem áður á þeim stað að okkur greinir á um það hvort hægt sé að gera breytingar afturvirkt. Það er hægt. Auðvitað gilda um það mjög ströng skilyrði en ég er sannfærð um það, ég veit að þau skilyrði eru fyrir hendi.