154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

meðferð sakamála, meðferð einkamála, gjaldþrotaskipti o.fl.

691. mál
[16:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu sem til mín er beint. Ég vil taka undir að það er gríðarlega mikilvægt hvað varðar aðgang að öllum gögnum og miðlun þeirra að farið sé með þessi gögn með mjög varfærnum hætti, einmitt til að vernda þá sem hagsmuna eiga að gæta, sérstaklega, eins og hv. þingmaður nefnir, í jafn viðkvæmum málum og kynferðisbrotamál eru. Í þessu frumvarpi er aftur á móti eingöngu verið að taka á meðferð gagna með rafrænum og stafrænum hætti en ekki miðlun gagnanna. Ráðherra getur því ekki annað en tekið undir þessar vangaveltur hv. þingmanns, að allur aðgangur að gögnum og hverjir eiga að hafa aðgang að þeim verður að vera mjög vandlega gætt. En þetta frumvarp fjallar ekki um það heldur hvernig við miðlum gögnum í meðförum mála innan réttarvörslukerfisins.