154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

meðferð sakamála, meðferð einkamála, gjaldþrotaskipti o.fl.

691. mál
[16:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur taka undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að tryggja öryggi gagna. Aftur á móti verður að lesa það ákvæði sem hv. þingmaður nefnir í samhengi við önnur ákvæði laga. Það verður að vera algerlega tryggt að í þessum stafræna og rafræna heimi sem réttarvörslukerfið er núna að stíga inn í, og algjörlega skýrt, að hægt sé að senda viðkvæm gögn á milli aðila, það sé gert með öruggum hætti og að öryggi gagnanna sé gætt. Ráðherra hefur ekki orðið var við annað en að mjög mikil meðvitund sé um það hjá þeim sem komu að gerð þessa frumvarps og hafa komið að þessum stafrænu breytingum innan réttarvörslukerfisins, að vanda mjög til verka.