154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

119. mál
[18:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ýmis mál eru rædd hérna en þetta finnst mér vera með því vitlausasta sem ég hef séð, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Ég held að við höfum gengið allt of langt á síðustu árum í að ríkisvæða stjórnmálaflokka. Ég get alveg tekið undir það að það eigi að vera ákveðin takmörk fyrir því hvernig hver kennitala geti stutt við stjórnmálaafl, hvort sem það eru einkaaðilar eða lögaðilar, en að tala fyrir því að lögaðilar megi ekki styrkja stjórnmálaöfl á þeim forsendum sem hv. þingmaður sagði hér, að þá gætu þeir með einhverjum hætti gert það tvisvar, annars vegar sem einstaklingar, þá eigendur að þessu, og hins vegar í gegnum félagið sjálft — ég meina, félög geta verið í eigu margra aðila og það er ekkert óeðlilegt við það að atvinnulífið, sem er þátttakandi í samfélaginu og mikilvægur hluti af því, geti líka veitt styrki til stjórnmálaafla, þó háð takmörkunum og gegnsæi, alveg eins og atvinnulífið á að geta veitt styrki til ýmiss konar félagasamtaka, hvort sem það eru Kiwanis, Lions, skátar, mannúðarsamtök eða annað þess háttar. Mér finnst sjálfsagt að þessir aðilar eigi að geta veitt slíka styrki. Ég vil reyndar miklu frekar fara í þá vegferð að við lækkum þessi ríkisframlög sem renna til stjórnmálaflokkanna. Nú veit ég að hv. þingmaður er talnaminnugri en ég en þetta eru orðnar alveg ofboðslega háar fjárhæðir sem fara úr vasa skattgreiðenda, og skattgreiðendur í þessu tilfelli eru þá bæði einstaklingar og fyrirtæki sem borga skatta, til stjórnmálafélaga og flokkanna. Jafnvel þó að viðkomandi flokkar eigi ekki einu sinni mann á Alþingi Íslendinga eru þeir engu að síður að fá gríðarlega háa fjármuni úr vasa skattgreiðenda í gegnum ríkissjóð.

Virðulegur forseti. Mér finnst oft gaman að ræða hér mál sem koma frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og stundum er ég bara nokkuð sammála þeim. En ég ætla líka að vera hreinskilin núna og segja að ég er þessu algerlega ósammála.