154. löggjafarþing — 71. fundur,  13. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Sjálfsögð vörn fyrir launafólk í landinu. Það er það sem forsvarsfólk hinnar svonefndu breiðfylkingar verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins kallar forsenduákvæðið sem þau vilja hafa um þróun vaxta og verðbólgu á næstu árum. Það er mikilvægt að tryggja eins og kostur er að heimili og fyrirtæki búi ekki við reglubundið vaxta- og verðbólguskrið. Það sama á auðvitað við um ríki og sveitarfélög, ekki síst á tímum þegar þau eru jafn skuldbundin og raun ber vitni núna. Það er í þessu sem hina raunverulegu kjarabætur liggja og það er ekki annað að heyra en að flestir átti sig á því. Árangurinn hins vegar er ekkert til að hrópa húrra fyrir, ekki bara nú hin síðustu ár heldur er þetta einn af rauðu þráðunum í efnahagssögu okkar hve illa tekst að koma böndum á vaxtakostnað okkar hér á landi, á þennan séríslenska vaxtakostnað.

Það er í þessu ljósi sérstakt og dapurlegt hve lítinn hljómgrunn tillaga Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins, hefur fengið um að fengnir verði óháðir erlendir sérfræðingar til að gera úttekt á kostum og göllum krónunnar og meta hvort við værum betur sett með annan gjaldmiðil. Þetta er risahagsmunamál fyrir bæði heimili og fyrirtæki. Þetta er tillaga sem á fullt erindi inn í kjaraviðræður. Hún á fullt erindi inn í vinnu stjórnvalda. Langtímaraunvaxtamunur, ekki bara við núverandi aðstæður heldur langtímaraunvaxtamunur okkar við okkar helstu viðskiptalönd, er í kringum 3% og þegar teknar eru saman skuldir opinberra aðila, skuldir fyrirtækja og skuldir heimila þá hleypur þessi aukakostnaður á hundruðum milljarða króna. Hvernig er það ekki forgangsmál stjórnvalda, samtaka atvinnurekenda, hagsmunasamtaka, einstakra starfsstétta, verkalýðshreyfingarinnar og fleiri að kafa ofan í þessi mál? Hvað kostar krónan okkur? Hvaða kosti eigum við aðra í stöðunni með hagsmuni þjóðarinnar í huga?