154. löggjafarþing — 71. fundur,  13. feb. 2024.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Í gær heyrðum við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýsa því hvað lögreglan þar er fáliðuð og að þar hefði lögreglumönnum ekki fjölgað um áratuga skeið. Þetta helst í hendur við veruleika lögreglunnar hér á höfuðborgarsvæðinu sem þjónar tæplega 250.000 íbúum þjóðarinnar en þar starfa í dag færri lögreglumenn en þegar embættið var stofnað árið 2007. Lögreglumönnum hefur fækkað um 40. Þetta gerist á sama tíma og fólksfjölgun hefur verið gríðarleg og öll verkefni lögreglunnar hafa þyngst. Dómsmálaráðherra staðfesti í sérstakri umræðu hér á Alþingi um daginn að á sama tíma hefur það jafnframt gerst að við sjáum aukinn vopnaburð í íslensku samfélagi. Við upplifum það að vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra hefur fjölgað. Fjöldi útkalla þar sem sérsveit hefur vopnast vegna skotvopna hefur þrefaldast frá árinu 2016. Starfsumhverfi lögreglunnar hefur því gerbreyst á síðustu árum. Fólki á landinu hefur fjölgað gríðarlega og lögreglan þarf mannafla, aukinn mannafla til að bregðast við. Viðbragð stjórnvalda er og hefur verið á höfuðborgarsvæðinu að fækka starfandi lögreglumönnum þegar við skoðum tímalínuna frá því að þetta embætti var stofnað og hver staðan er í dag. Það vill stundum gleymast, finnst mér, þegar við erum að tala hér inni í þessum sal um grunnþjónustu við fólkið í landinu og innviði að löggæslan er þar undir, mörg samfélagsleg verkefni sem hafa í sjálfu sér ekkert með afbrot að gera heldur þjónustuhlutverk lögreglunnar við borgarana í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að við sem samfélag höfum ekki efni á því að vera með svona fáliðaða lögreglu, (Forseti hringir.) svona vanfjármagnaða lögreglu og að löggæslan og réttarkerfið allt, (Forseti hringir.) sjálft öryggi fólksins í landinu eigi ekki að vera afgangsstærð í pólitískri umræðu, hvað þá í fjármögnun.