154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við erum að ganga í gegnum mjög tíðindamikil tímabil hvað varðar náttúruvá á Reykjanesskaga. Auðvitað þekkjum við náttúruhamfarir frá fyrri tíð en við höfum búið við þann munað að það hefur verið fremur rólegt hér í kringum þetta þéttbýlasta svæði landsins undanfarnar aldir. Hins vegar hafa jarðvísindamenn að sjálfsögðu bent á það að Reykjanesskaginn muni vakna fyrr eða síðar enda þekkt að eldvirkni þar er lotubundin og gengur yfir á um 800–1000 ára fresti og getur þá staðið yfir lengi. Þar sem tæp 800 ár eru liðin frá síðustu þekktu gosum á skaganum, þegar skaginn fór af stað fyrir tæpum fjórum árum eða svo, mátti auðvitað öllum vera ljóst að til tíðinda gæti dregið fyrr eða síðar. Sá veruleiki hefur raungerst okkur og minnir okkur á hversu mjög líf okkar og tilvist er mótuð af náttúrunni. Það var mjög merkilegt að heimsækja svæðið í gær þar sem nýtt hraun hefur gerbreytt ásýndinni á leiðinni til Grindavíkur og á sama stað hafa varnargarðar líka gerbreytt ásýndinni. Nú í björgunaraðgerðum helgarinnar var lagður nýr vegur yfir nýja hraunið sem aftur breytir þessari ásýnd og við sjáum í raun og veru baráttu náttúru og manns birtast þarna ljóslifandi fyrir augum okkar.

Þessar vikur hafa verið gríðarleg áskorun núna upp á síðkastið, ekki síst auðvitað fyrir íbúa Grindavíkur sem við höfum rætt hér, viðbragðsaðila á Suðurnesjum og nú síðast alla íbúa á Suðurnesjum. Ég flutti aðra skýrslu á Alþingi 22. janúar síðastliðinn. Þar fór ég yfir það að staðan á Reykjanesskaga væri að mörgu leyti fordæmalítil á þeim tímum sem við lifum því að það er töluvert langt síðan að líta til landnámsaldar og meira að segja þá var til að mynda Grindavík óhult fyrir þessum eldsumbrotum enda hefur verið byggð þar frá landnámi. Ég tel að það sé algjörlega óhætt að fullyrða að við sem samfélag stöndum frammi fyrir stærstu áskorunum á sviði náttúruhamfara sem við höfum upplifað á lýðveldistímanum. En á sama tíma vil ég segja að við erum betur í stakk búin til að takast á við þær en við höfum nokkru sinni verið.

Mér fannst merkilegt líka þegar ég fór á svæðið í gær hversu yfirvegaðir allir íbúar voru. Ég hitti margt fólk, voru öll búin að vera heitavatnslaus í nokkra daga en tókust á við það af æðruleysi og seigla. Sama æðruleysi og sömu seiglu höfum við séð hjá íbúum Grindavíkur sem þurftu auðvitað að rýma sitt bæjarfélag í byrjun nóvember og hafa búið við ótrúlega óvissu undanfarna mánuði. Ég vil líka nefna viðbragðsaðila sem hafa unnið gríðarlegt þrekvirki undanfarnar vikur og mánuði sem og öll þau sem hafa komið að þeim framkvæmdum sem hafa verið á svæðinu. Það er algerlega ótrúlegt að sjá það þrekvirki sem var unnið við það að gera við heitavatnslögnina. Við héldum á föstudegi að þetta væri að takast. Það gekk ekki eftir og það voru mikil vonbrigði en þá var bara haldið af stað í næstu lausn og hún gekk eftir.

Frá 18. desember síðastliðnum hefur gosið þrisvar sinnum á Reykjanesskaga og þær hamfarir hafa valdið tjóni á mannvirkjum, innviðum og fráveitu í og við Grindavík þar sem tjónið er auðvitað mest. Í eldsumbrotunum sem hófust núna hinn 8. febrúar virtist gosið hættulítið í byrjun en fljótlega fór hraunið að streyma af miklum krafti yfir Grindavíkurveg og hitaveitulögnina, svokallaða Njarðvíkuræð sem flytur heitt vatn til allra íbúa á Suðurnesjum frá orkuverinu í Svartsengi. Þetta voru fjórir sólarhringar þar sem íbúar á Suðurnesjum bjuggu við heitavatnsleysi og það má segja að þarna hafi ræst ein svartasta sviðsmyndin sem við höfum haft á borðinu.

Allt frá því að yfirstandandi kafli þessarar eldsumbrota hófst 10. nóvember þegar 15 kílómetra langur kvikugangur myndaðist austan við orkuverið í Svartsengi hefur verið unnið hörðum höndum að því að fyrirbyggja þá stöðu sem kom upp núna þegar það varð heitavatnslaust. Þar hefur farið mikil vinna í að leggja nýja hjáveitulögn í jörð sem átti að standast það að hraun gæti flætt yfir hana. Hún rofnaði hins vegar undir miðju hrauninu á föstudagskvöld og þá var talið ógerlegt að ráðast í viðgerðir á henni. Án tafar var því farið að leggja nýja 500 metra langa hjáveitulögn yfir hrauntunguna. Fyrst þurfti að ljúka þeim vegaframkvæmdum sem ég lýsti hér áðan yfir nýrunnið hraun. Það er óhætt að segja að framkvæmd af þessu tagi hefur ekki verið gerð áður en hún heppnaðist og því fór heitt vatn að streyma á ný til íbúa Suðurnesja eftir kalda helgi í gær, á mánudegi.

Ég vil fara aðeins yfir annað það sem gert hefur verið í fyrirbyggjandi aðgerðum, m.a. hefur verið gripið til aðgerða til að auka vatnsöflun á köldu neysluvatni á Suðurnesjum í eldra vatnsbóli við Árnarétt í Garði. Það er verið að koma fyrir nýrri kaldavatnslögn við Svartsengi til að tryggja varaleið fyrir kalt vatn við orkuverið. Einnig má geta þess að fjarskiptamöstur höfðu verið varin með því að hækka upp undirstöður þeirra og nú þegar er búið að byggja nýjar undirstöður undir ný möstur sem eru á leiðinni til landsins og munu væntanlega vera sett upp í byrjun mars.

Varðandi rafmagn þá voru settar varnarkeilur í kringum þau tvö möstur sem lágu í lægð. Þar er framtíðarbreyting í vinnslu. Það er búið að steypa grunn að nýrri staðsetningu fyrir rafmagnsmöstur þar sem nýtt stórt mastur verður sett. Ég gekk nú upp á þann stað í gær og það nýja mastur ætti að vera komið fyrir mánaðamót. Þetta er mjög mikilvæg framkvæmd því að heitavatnsframleiðslan byggir á rafmagni þannig að dag og nótt er unnið að þessari framkvæmd.

Ég nefndi hér áðan að það var mikið þrekvirki unnið um helgina og það er tilefni til að þakka þeim fjölmörgu aðilum sem áttu þátt í að koma heitu vatni á nýjan leik til íbúa Suðurnesja. Til framtíðar er hins vegar mikilvægt að tryggja það að hægt verði að nálgast heitt vatn á ólíkum stöðum á Suðurnesjum. Það er stefnt að því að afla lághitavatns til húshitunar á Reykjanesskaga úr nýrri rannsóknarholu á Njarðvíkurheiði sem er staðsett nálægt eldri holum og þar standa vonir til að neðan 800 metra dýpi sé hægt að fá um 80°C heitt vatn þannig að holan verði hæf til vinnslu. Þá þarf að skoða tengingu Svartsengis við Reykjanesvirkjun um Grindavík. Það myndi tryggja betur heitt vatn og orkuöryggi svæðisins. Ég átti fundi með sveitarstjórum og starfsfólki sveitarfélaga og sveitarstjórnarfulltrúum í gær og þar komu fram hugmyndir um það að mögulega gæti sorpbrennslustöð sem hefur verið rætt um á svæðinu verið hluti af því að tryggja líka hitun á svæðinu eins og við þekkjum vel frá nágrannalöndum okkar. Það er auðvitað áhugaverð lausn, myndi ég segja, og eitthvað sem við eigum að skoða af fullri alvöru með heimafólki.

Atburðir síðustu vikna og mánaða hafa vakið okkur til umhugsunar um okkar samfélagslega mikilvægu innviði. Hvernig eigum við að vera undirbúin undir það að geta stöðugt búist við nýjum eldsumbrotum á Reykjanesskaga? Þetta er svæði sem ég nefni hér aftur að er hluti af þéttbýlasta svæði landsins. Hvernig getum við sem best tekist á við eldvirkni á svæðinu og varið fólk og innviði án þess að vita nákvæmlega hvar hættan birtist næst og í hvaða formi?

Ég vil rifja upp þá vinnu sem unnin var í janúar 2020 þegar ríkisstjórnin skipaði átakshóp til að vinna tillögur til úrbóta á innviðum um land allt en þá hafði mikið ofsaveður leikið okkur grátt í desember 2019 og valdið rafmagns- og fjarskiptaleysi. 28. febrúar var samþykkt aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða um land allt sem gekk undir nafninu Innviðir 2020. Þar voru lagðar til 554 aðgerðir, þar af 287 uppbyggingaraðgerðir. Stórum hluta þessara aðgerða er lokið en þær sneru m.a. að varaafli, auknum áreiðanleika raforku- og fjarskiptakerfa, skilgreiningu á hlutverki og mönnun fyrirtækja, stofnana, eflingu almannavarnakerfisins og eflingu rannsókna og vöktunar á náttúruvá. Meðal annars á þessum grunni sjáum við varaafl sem nú er aðgengilegt, sem var alveg gríðarlega mikilvægt, til að mynda fyrir heilbrigðisstofnanirnar. Ég rifja það upp að þegar óveðrið gekk yfir 2019 voru heilbrigðisstofnanir sem lentu í því alvarlega ástandi að vera rafmagnslausar vegna þess að varaafl var ekki til staðar. Þessi hugsun hefur breyst sem betur fer, m.a. með markvissri vinnu stjórnvalda en líka aukinni meðvitund, getum við sagt, bæði íbúa fyrirtækja og stofnanna.

Frá 12. mars 2021 hefur verið starfandi samhæfingarteymi ráðuneytisstjóra vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og það hefur tryggt heildstæða yfirsýn og samhæfingu aðgerða þvert á ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Fyrsta eldgosið í yfirstandandi hrinu hófst einmitt 19. mars það ár. Fyrsta verk samhæfingarteymisins var að fela starfshópi ýmissa sérfræðinga að gera greiningu á innviðum og tillögur að varnaraðgerðum vegna mögulegs hraunrennslis út frá völdum sviðsmyndum um gosstaði og goslengd. Á grunni þeirrar sérfræðingavinnu var ráðist í margvíslegar prófanir og varnaraðgerðir til að undirbúa það að verja mikilvæga innviði og byggð á Reykjanesskaga.

Þegar ljóst var að jarðeldar gætu ógnað byggð og mannvirkjum í Grindavík í nóvember síðastliðnum mælti ég fyrir frumvarpi til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Varnargarðarnir sem risið hafa síðan frumvarpið varð að lögum hafa þegar sannað gildi sitt og eins og ég nefndi hér áðan var dálítið magnað að sjá þessa varnargarða og þann svip sem þeir setja á landslagið samhliða því að horfa á glænýtt hraun sem enn þá rauk úr í gær á leiðinni til Grindavíkur. En varnargarðarnir, þótt það sé auðvitað umdeilanlegt hversu mikil prýði þeir eru í náttúrunni, hafa nú þegar sannað gildi sitt í að verja mikilvæga innviði.

Ég sé það hér að tími minn er búinn.

(Forseti (ÁLÞ): Ég held að klukkan sé eitthvað vitlaus akkúrat núna. Forseti tékkar á því. )

Já, ég lýk kannski þessari skýrslugjöf með rauða ljósið blikkandi. En ég vil líka nefna hér, og það hefur komið fram áður, að hafin er vinna við gerð heildstæðs hættumats fyrir Reykjanesskaga. Sú vinna er undir forystu Veðurstofu Íslands. Þetta er gríðarlega mikilvægt því að hér eru mörg eldstöðvakerfi undir. Það er búið að gera mjög mikið til að flýta þeirri vinnu því hún tekur töluverðan tíma og stefnt er að því að niðurstöður hennar verði birtar í áföngum þannig að við fáum áfangaskýrslur úr vinnunni. Gert er ráð fyrir að henni verði lokið á árinu 2025. Hún fjalli um áhrif og áhrifasvæði jarðskjálfta og hraunflæðis nærri þéttbýli, enn fremur hættu og áhættumat vegna gjósku og gass í andrúmslofti. Slíkt hættumat hefur þegar verið unnið fyrir þann hluta Reykjanesskaga sem hefur verið virkastur og þeirri vinnu lauk í sumar en nú sem sagt heldur sú vinna áfram og verður birt í áföngum fram á árið 2025.

Ég vil líka nefna það að í janúar 2023 samþykkti ríkisstjórn tillögu mína um að setja á laggirnar samráðsteymi um afhendingaröryggi orku og vatns á Reykjanesskaga. Síðla síðasta árs kynnti teymið skýrslu þar sem lagðar voru til fjölmargar langtíma- og skammtímaaðgerðir til styrktar áfallaþoli orku- og vatnsinnviða á svæðinu út frá ólíkum sviðsmyndum.

Það hefur því mikið starf verið unnið allt frá árinu 2019 og fram á þennan dag til að styrkja áfallaþol samfélagsins með tilliti til þeirrar náttúruvár sem að steðjar. Allt starf miðast að því að tryggja öryggi fólks og treysta mikilvæga innviði.

Ég tel að íslenskt samfélag standi frammi fyrir mjög stórum verkefnum og það var áhugavert sem fram kom hjá Páli Einarssyni í umræðuþætti um helgina þar sem hann fór yfir það að á 20. öldinni, þar sem við höfum verið að byggja upp allt þéttbýli, stökkva inn í nútímann sem samfélag, hafi ríkt tiltölulega mikil ró á þessu sviði. Það er auðvitað nokkuð sem við þurfum núna að skoða til framtíðar, ekki bara að ljúka þeirri vinnu sem hafin er heldur að fara að meta það, til að mynda hvað varðar skipulagslög, að þar þurfi að taka aukið tillit til náttúruvár. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Eins þurfum við að hafa langtímasýn undir samhliða því að vera í stöðu viðbragði.

Ég þori eiginlega ekki að tala lengur því klukkan er mjög truflandi hér, frú forseti, og ég hef ekki hugmynd um hvert ég er komin.

(Forseti (ÁLÞ): Ég hef það eiginlega ekki heldur, það eru svolítið misvísandi skilaboð. En ræðutíminn er víst liðinn.)

En ég held að þetta hafi verið ágætisyfirlit.