154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að það væri færi betur á því að þetta væri allt saman í lagi í opinberri eigu en auðvitað er þarna saga sem ríkið fór að rúlla af stað á sínum tíma með Hitaveitu Suðurnesja og sinn eignarhlut og svona erum við stödd núna. Þá er spurning hvort hægt sé að vinda ofan af því, hvort við séum bara stödd á þessum stað. Nú hefur verið ráðist í alls konar framkvæmdir. Ég las í fjölmiðlum að fyrirtækin hafi fengið styrk til að bora holu á lághitasvæði fyrir hitaveitu sem gæti verið varanleg lausn og gæti jafnvel skilað arði og breytt einhvern veginn hlutföllum á rafmagns- og heitavatnsframleiðslu í Svartsengi og haft áhrif á innkomu fyrirtækisins til framtíðar. Var þarna gert ráð fyrir hlut ríkisins eða er ríkið bara að borga? Erum við að gera það sem við erum svo góð í, að ríkisvæða tap en einkavæða gróða?