154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt að sveitarfélög á Suðurnesjum vinni sameiginlega, þarna eru fjögur sveitarfélög, að því að horfa í raun og veru á heildarskipulag svæðisins. Ef við horfum á orkukerfin á svæðinu þá mótast þau af því að Svartsengi er miðlægt. Þaðan liggja allar lagnir og línur vegna eðlis starfseminnar. Eðli máls samkvæmt er Svartsengi, jarðhitavirkjun, á mjög eldvirku svæði. Þar af leiðandi liggja þessar lagnir og línur yfir svæði sem eru í mikilli hættu þegar eldsumbrot verða. Að sjálfsögðu horfir maður þá á mögulega aðra kosti sem þurfa að vera hluti af framtíðarmyndinni og það fannst mér áhugavert að heyra íbúa á svæðinu vera að benda á. Það er verið að horfa á Njarðvíkurheiðina eins og ég nefndi, verið að horfa á Reykjanesvirkjun, möguleika á sorpbrennslustöð sem er stór og mikil framkvæmd en getur hins vegar til lengri tíma litið þjónað tvöföldum tilgangi. Þarna held ég að það skipti miklu máli að sveitarfélögin vinni með ríkinu. Þetta getur haft líka áhrif á aðra innviði, (Forseti hringir.) samgöngur og fleira. Við þurfum að nálgast í raun og veru allt skipulagið út frá þeirri náttúruvá sem við getum átt von á næstu ár og áratugi.