154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var kannski of bjartsýnn að halda að það væri hægt að koma til þingsins með skýrslu, án þess að fyrir þinginu lægi tillaga, til að taka dálítið breiða umræðu um ólík sjónarmið í þessu stóra máli sem ég tel að við ættum ekki að taka of léttvægt heldur sýna fulla athygli og taka afstöðu til mála. Það er það sem þingið verður að gera, það þarf að taka afstöðu til þeirra álitamála sem við stöndum frammi fyrir eftir athugasemdir ESA. En ég er strax farinn að festast í umræðu um að þetta sé bara allt saman gert til heimabrúks út af einhverjum innanhússmálum í Sjálfstæðisflokknum. Ég ætla ekki að svara því nema bara að segja að ég er að meina það sem ég segi hérna. Ég er að kalla eftir alvöruumræðu sem hjálpar til við að vega og meta ólík sjónarmið. Ég er að reyna að nota þennan lýðræðislega vettvang sem þingið er til að hlusta og ég mun taka mark á ábendingum um það að við ættum einfaldlega að láta þetta sem vind um eyru þjóta (Forseti hringir.) og fara sigurviss inn í EFTA-dómstólinn ef það er það sem menn vilja að verði gert (Forseti hringir.) og með þá hvaða rökum. En ég hef verið að tala fyrir því hér að við ættum að bregðast við.