154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ekkert í því að þessi ríkisstjórn skuli vera orðin föst í því að lifa í stöðugum ótta við EES-samninginn. Við höfum séð þetta henda ítrekað. Svo koma jafnvel rök eins og þessi Viðreisnarrök sem ég vék að áðan um að það sé svo mikilvægt að EES-löggjöfin taki fram yfir þá sem var búin til hér, ef það kemur ágreiningur, vegna þess að hún sé einhvern veginn betri til að vernda rétt almennings. Þetta ber ekki vott um mikið sjálfstraust hvað varðar lagasetningu hér á Alþingi ef menn fara að ímynda sér að aðsenda löggjöfin hljóti að vera betri og þess vegna mikilvægt að vernda hana. En í ljósi svars hæstv. ráðherra minni ég á að forveri hans, sem formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, hefur bent á að það hafi ekki verið að ástæðulausu að 35. gr. var skilin eftir eins og raun var. Þetta hafi verið ákveðið grundvallaratriði hvað varðaði upptöku EES-samningsins á Íslandi.