154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir svarið. Fyrir þá sem ekki vita þá hafa evrópskir dómstólar náð að túlka fjórfrelsisreglurnar á hreint út sagt ótrúlegan hátt þannig að í þeim felist hinar ýmsu skyldur sem engum hefði dottið í hug við inngöngu þegar við vorum að innleiða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fyrir 30 árum síðan. Við áttuðum okkur t.d. varla á því að fjórfrelsið okkar fæli í sér skyldu til að setja raforkusölu á samkeppnismarkað eða ESB fengið framselt vald til að ákveða t.d. vinnutímalöggjöf hérlendis. ESA leit meira að segja svo á að lög um leigubifreiðar brytu gegn fjórfrelsinu.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að EES-samningurinn sé ekki það öflugur tvíhliða samningur að við eigum í rauninni rétt á því sem fullvalda sjálfstætt ríki að framfylgja okkar löggjöf? Ítrekað talar þingmaðurinn um „nema ef Alþingi samþykki annað“ og það sé í rauninni í höndum okkar hér, löggjafans, að samþykkja annað. Þá kemur beint sú spurning: Er það ekki geðþóttaákvörðun þeirra sem sitja í ríkisstjórn hverju sinni hvernig þeir túlka löggjöfina og hvað þeir samþykkja yfir höfuð og hvers lags áhættuþáttur felst í því að innleiða löggjöf sem felur þá í rauninni meiri hluta Alþingis, í þessu tilviki sitjandi ríkisstjórn hverju sinni, að taka þá geðþóttaákvörðun sem þeim nákvæmlega sýnist, hvernig sem það lítur út fyrir meginþorra samfélagsins, fullveldi okkar og sjálfstæði?