154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta það sem hv. þm. Logi Einarsson sagði hér rétt áðan. Ég tók það skýrt fram að EES-samningurinn væri einhver sá mikilvægasti samningur og sennilega einn sá mikilvægasti sem við höfum nokkurn tímann gert og gefur okkur aðgang að innri markaði yfir 520 milljóna samfélags. Svo það sé algerlega slegið út af borðinu þá er það ekki í kortunum en hins vegar er Flokkur fólksins ekki hlynntur inngöngu í Evrópusambandið að svo stöddu. Hvað framtíðin ber í skauti sér er svo önnur saga. Við í Flokki fólksins lítum skilyrðislaust á Ísland sem nógu stórt til að sjá sínum farborða. Við teljum okkur nógu stór til að taka ákvarðanir í eigin málum og við erum stolt af því.

En nú lítum við á bókun 35 og hún er svohljóðandi:

„Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

Sem sagt að EES-reglur gangi framar íslenskri löggjöf. Þegar við gengum í EES-samstarfið lá að baki þeirri inngöngu mikil umræða um hvort breyta þyrfti stjórnarskrá. Niðurstaða þingsins var sú að löggilda samninginn án þess að setja í lög ákvæði um forgang lagaákvæða sem innleiða EES-reglur þannig að núna í samningnum eins og hann liggur fyrir er akkúrat ekkert sem segir til um það að við viljum forgangsraða Evrópureglum framar okkar eigin reglum. Í staðinn lögfestum við þá reglu að almennt bæri að skýra lagaákvæði til samræmis við EES-samninginn. Þetta er svipað eins og við þekkjum og gerum enn í sambandi við mannréttindasáttmála Evrópu.

Nú er til skoðunar hvort setja eigi í lög forgangsreglu líkt og bókun 35 mælir fyrir um. Skýrsla ráðherra fjallar ágætlega um þá stöðu sem er uppi og svo virðist sem okkur standi til boða tveir valmöguleikar. Annaðhvort breytum við lögum og mælum fyrir um forgang lagaákvæða sem byggja á innleiðingu EES-reglna eða við látum reyna á það fyrir EFTA-dómstólnum hvort áratugalangt fyrirkomulag innleiðinga, sem talið var forsenda fyrir inngöngu Íslands í EES, standist. 30 ár eru liðin frá inngöngu Íslands í EES-samstarfið. Af og til hefur það gerst að dómar falla á einn veg sem kynnu að hafa fallið á annan veg ef við hefðum verið búin að innleiða bókun 35. En það er varla svo að þessi tilvik séu svo alvarleg að það ógni EES-samstarfinu, þ.e. þegar innleiddar EES-reglur stangast á við íslenska löggjöf. Hingað til hafa slík tilvik verið afgreidd á sama hátt og önnur mistök við innleiðingu EES-reglna, svo sem þegar EES-reglur eru innleiddar á rangan hátt og einnig þegar EES-reglur eru ekki innleiddar á tilskildum tíma. ESA kemur einfaldlega ábendingum áleiðis til stjórnvalda og ríkisstjórnin bregst við eftir tilefni hverju sinni. Þá er það Alþingi sem gerir breytingar á lögum með samþykki meiri hluta kjörinna fulltrúa. Því má aldrei gleyma að það er jú Alþingi Íslendinga sem er hinn eini sanni löggjafi.

En nú telur ESA sem sagt að þetta ferli sé allt of þungt í vöfum og vill að við innleiðum bókun 35. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Jú, hún ætlar að gera það sama og venjulega, leggjast kylliflöt og leyfa Brussel að valta yfir okkur og taka völdin, ekki satt? Persónulega myndi ég vilja fara dómstólaleiðina. Ég tel að það sé alls ekki ljóst hvort við séum komin á þann stað að þörf krefji okkur til að setja forgangsreglu. Ég tel að við eigum að njóta vafans í þessum efnum og höfum enga þörf á því að setja slíka forgangsreglu til að þóknast Brussel og yfirvaldinu þar. Þar fyrir utan tel ég að slík forgangsregla sem um er rætt brjóti í bága við stjórnarskrá og stangist á við hefðhelgaða stjórnskipunarvenju um réttarhæð réttarheimilda.

Mín sannfæring er sú að við myndum vinna slíkt dómsmál líkt og við unnum Icesave-málið á sínum tíma sem flestallir sérfræðingar hér töldu algjörlega vonlaust að vinna. Grundvallaratriði er jafnframt að samkvæmt gildandi fyrirkomulagi er það Alþingi Íslendinga sem gerir breytingar á lögum, telji þingið þörf á því, enda kveðið á um það í stjórnarskrá. Á Íslandi túlkum við lögin samkvæmt orðanna hljóðan. Á Íslandi ganga yngri lagaákvæði framar eldri lagaákvæðum. Þá er almennt viðurkennt á Íslandi að sérlög gangi framar almennum lagaákvæðum. Innleiðing bókunar 35 á þann hátt sem lagt var til í frumvarpi því sem lagt var fram síðasta vor gengur í berhögg við meginreglu íslensks réttar um forgang yngri laga og það er algerum vafa undirorpið hvort lagaákvæði verði túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan þegar þau kunna að mæla fyrir um reglu sem gengur gegn EES-skuldbindingunum. Jafnframt kynnu almenn ákvæði EES-samningsins að vera túlkuð með þeim hætti að þau gangi framar sértækum lagaákvæðum. Ég tel að ef löggjafinn vill gera jafn veigamikla breytingu á meginreglum íslenskrar stjórnskipunar, eins og liggur í innleiðingu bókunar 35, þá þurfi til að koma breyting á stjórnarskrá.

Þá hefur því verið haldið á lofti af einhverjum að innleiðing bókunar 35 myndi alls ekki hafa nein áhrif. Þetta væri í raun bara smá formsatriði. Það er alrangt. Með leyfi forseta, langar mig að vitna í grein eftir Hafstein Dan Kristjánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst þar sem í greininni segir, með leyfi forseta:

„Þar sem fyrirhuguð forgangsregla hefur almennt gildissvið, í þeim skilningi að hún tekur til allra innleiddra EES-reglna, hvort heldur samkvæmt meginmáli EES-samningsins, bókunum, viðaukum eða afleiddum gerðum, er hún til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenskum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir verði frumvarpið að lögum. Í því sambandi verður jafnframt að hafa hugfast að grunnreglur EES-samningsins á borð við fjórfrelsisreglurnar eru háðar túlkun EFTA-dómstólsins með hliðsjón af réttarframkvæmd í Evrópurétti.“

Ég túlka þessi orð greinarhöfunda á þá leið, hvað varðar bókun 35, að verði hún innleidd þá gæti svo farið að fjórfrelsisreglur EES-samningsins myndu öðlast sérstöðu gagnvart öðrum lögum og að lögum yrði ekki beitt ef þau teldust ósamrýmanleg fjórfrelsinu, jafnvel þótt þau lagaákvæði væru skýr samkvæmt orðanna hljóðan. Þannig myndi tilraun til að koma í veg fyrir einstaka misræmi á innlendri löggjöf og alþjóðaskuldbindingum veita erlendum dómstólum neitunarvald gagnvart íslenskri löggjöf ef þeir telji hana að brjóta í bága við fjórfrelsið. Fyrir þá sem ekki vita þá hafa evrópskir dómstólar náð að túlka fjórfrelsisreglurnar á hreint út sagt ótrúlegan hátt þannig að í þeim felist hinar ýmsu skyldur sem engum hefði dottið í hug við inngöngu í EES árið 1993. Við áttuðum okkur t.d. ekkert á því að fjórfrelsi fæli í sér skyldur til að setja raforkusölu á samkeppnismarkað. Við héldum að við myndum eiga hér orkuna okkar algerlega skilyrðislaust og réðum okkar ráðum hvað það varðaði sjálf. Það er nú annað komið á daginn. Ég veit um fáa Íslendinga sem vita yfir höfuð um hvað orkureikningurinn snýst. Hann er orðinn svo margskiptur og margslunginn að maður veit ekki hvort maður er að koma eða fara, maður bara passar sig á því að segja ekkert einasta aukatekið orð og borgar brúsann þegjandi og hljóðalaust.

Það er sannarlega ástæða til þess að skoða þetta ígrundað og ef Alþingi Íslendinga er á þeim stað að það vilji innleiða bókun 35 þá er kannski bragur á því að breyta stjórnarskránni þannig að ekki sé hafið yfir vafa að við séum hugsanlega að brjóta íslenskar reglur. Ég virði stjórnarskrána okkar þó að það sé margoft gengið um hana af hinni mestu léttúð hér á hinu háa Alþingi. Ég skal alveg viðurkenna það. Ef við ætlum að gera þetta og það á að vera einhver bragur á því þá skulum við a.m.k. tryggja það að við séum ekki að ganga á okkar grundvallarlög eins og við munum gera með því að innleiða bókun 35 án þess að taka tillit til þess sem stjórnarskráin okkar kveður á um.

Virðulegi forseti. Við í Flokki fólksins erum alveg til í umræðuna, við erum til í að dýpka umræðuna og synda með hæstv. utanríkisráðherra eins djúpt og hann vill. En þetta er í rauninni mál sem varðar okkur öll og skiptir okkur öll miklu máli. Ég sem kjörinn fulltrúi hér, sem elska mitt land og elska mitt fullveldi og okkar lýðveldi og okkar lýðræði, okkar sjálfstæði og okkar stjórnarskrá, mun ekki greiða því atkvæði að bókun 35 nái fram að ganga eins og hér virðist eiga að verða að veruleika.