154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Mig langar hér í fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann út í það sem kom fram undir lok seinna svars í fyrra andsvari. Mér þótti það vera einhvers lags forsenda fyrir því að ef fólk vildi viðhalda EES-samningnum, þ.e. það væri afstaða hv. þingmanns, ef þingmenn vildu viðhalda EES-samningnum og að breyting yrði gerð á innleiðingu bókunar 35 — það væri einhvers lags ómöguleiki að vilja hafa fyrirkomulag bókunar 35 óbreytt frá því sem nú er og á sama tíma telja skynsamlegt að viðhalda EES-samningnum. Ég vil biðja hv. þingmann að fara kannski örlítið yfir þetta til að skýra afstöðu sína.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til 102. gr. EES-samningsins, hvort á fyrri stigum hafi komið upp tilefni til að nýta sér þá heimild sem þar er skrifuð inn eða hvort þau mál sem hingað til hafa verið afgreidd hér í þinginu er varða EES-samninginn hafi í engu kallað á að sú grein kæmi til skoðunar og yrði eftir atvikum nýtt.