154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[19:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það var áhugavert að heyra vangaveltur hv. þm. Bergþórs Ólasonar hér áðan um tilurð málsins. Þetta er eitthvað sem menn hljóta að velta fyrir sér eftir að þetta hefur fengið að liggja í dvala í 30 ár og í rauninni orðið allt of seint fyrir ESB eða ESA núna að ætla að fara að krefjast innleiðingar, hvað þá að í því felist einhver hótun um að Íslendingar geti bara annars verið reknir úr EES-samningnum, sem enginn hefur hótað nema kannski helstu stuðningsmenn þessa máls í stjórnarflokkum, Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum. Það eru ýmsir sem hafa látið glepjast af þessu. En ég fór að velta fyrir mér hvort það gæti verið hugsanlegt að þetta mál væri ekki aðeins stutt af Samfylkingunni heldur hefði það á einn eða annan hátt orðið til í Samfylkingunni. En það er eitt af því sem við vitum ekki. Það er svo margt sem við vitum ekki um fyrri stig þessa máls fyrr en það allt í einu dúkkaði upp. En vonandi, ef umræða heldur áfram í nefndinni og annars staðar, getum við þá komist til botns í því. — Ég hélt að ég ætti hér tíu mínútur, frú forseti.

Ég ætlaði aðeins að rekja hvað þessi áformaða innleiðing, sem sagt viðbót við bókun 35, líkist á margan hátt því hvernig stjórnvöld, þessi ríkisstjórn ekki hvað síst, hafa gefið frá sér að því er virðist óvart völd yfir hinum ýmsu málaflokkum og talið okkur trú um að þetta væri bara eitthvert tæknilegt atriði, þetta skipti engu máli, það yrði bara að klára þetta, það væri ekki annar kostur í stöðunni. Svo þegar búið er að innleiða eða búið er að fullgilda eða lögleiða koma afleiðingarnar í ljós og þá svara menn því bara til: Ja, þetta er bara svona, við erum skuldbundin. Eitt af þessum málum er auðvitað flugmálið sem töluvert var rætt hér og svo bara afgreitt einn, tveir og þrír á þeim forsendum að Ísland hefði fengið einhverjar undanþágur. Þetta voru ekki undanþágur. Samt gerðust menn svo ósvífnir að halda því fram, þess vegna væri ekkert mál að samþykkja þetta mál, mál sem ráðherrar höfðu margir varað við og að eigin sögn haldið 200 fundi til að reyna að koma í veg fyrir. 200 fundi. Svo allt í einu snerist þeim hugur og ákváðu bara að henda þessu í gegn, gegn því að fá hvað, afslátt í tvö, þrjú ár? Svo tekur þetta hræðilega regluverk hér gildi að fullu, regluverk sem mun bitna sérstaklega á Íslendingum.

Þetta er alltaf svona, frú forseti. Það er byrjað á því stundum að þykjast ætla að verjast eitthvað, vera fastur fyrir. Svo gengur mönnum það eitthvað erfiðlega. Þá er umvent og sagt: Þetta skiptir í rauninni engu máli, við erum búin að fá sérstakar lausnir, klárið þetta bara. Þetta veldur mér áhyggjum. Ef þetta mál yrði einhvern tímann klárað þá fengjum við nægar ástæður til að hafa áhyggjur næstu árin.

Þetta er sem sagt það sem ég ætlaði að tala um í tíu mínútur en af því að ég hef svo skamman tíma eftir þá vil ég einfaldlega árétta það, frú forseti, í framhaldi af umræðunni um þetta mál hér, að við hljótum að geta leyft okkur, Alþingi Íslendinga, að hafa meira sjálfstraust annars vegar gagnvart samstarfinu í EES en líka bara trú á okkur sjálfum að geta sett hér almennileg lög sem henta íslenskum aðstæðum en þurfa ekki að fá þetta í bögglapósti og stimpla bara hér, fá þetta allt á færibandinu og þora ekki einu sinni að gera athugasemd. Ekki skortir nú bögglana sem streyma á því færibandi.

Þetta ætla ég að skilja eftir hérna í lok þessarar skýrsluumræðu: Alþingi Íslendinga, og ég tala nú ekki um þessi ríkisstjórn sem við sitjum uppi með núna, þarf meira sjálfstraust.