154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

tímabundið innra eftirlit á landamærum og PNR-samningar um farþegalista í flugvélum.

[15:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Undanfarin ár hefur Ísland tekið við áttfalt fleiri umsóknum hælisleitenda um alþjóðlega vernd en Danmörk, Noregur og Finnland. Síðustu tvö ár hefur kostnaður okkar vegna þessara umsókna verið yfir 35 milljarðar kr. með tilheyrandi álagi á innviði og auknum félagslegum vanda. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra hvers vegna dómsmálaráðuneytið sé ekki búið að koma upp tímabundnu innra eftirliti með landamærunum í samræmi við undanþágu í Schengen-samstarfinu, líkt og Austurríki, Danmörk, Þýskaland, Frakkland, Noregur og Svíþjóð hafa gert.

Einnig vil ég gjarnan fá upplýsingar um það hvar gerð PNR-samninga standi, til að tryggja að erlend flugfélög skili stjórnvöldum öllum þeim farþegalistum sem óskað er eftir við komu þeirra hingað til lands. Þannig munum við efla getu lögreglu til að tryggja frekara öryggi okkar og um leið koma í veg fyrir innflutta skipulagða glæpastarfsemi.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort Sjálfstæðisflokkurinn, sem allir vita að hefur um árabil borið 100% ábyrgð á málefnunum, á útlendingamálunum, sé sáttur við það ástand ófremdar sem nú hefur skapast í málefnum hælisleitenda sem sækja hér um alþjóðlega vernd þar sem flokkurinn, kannski í valdagræðgi sinni, ég veit það ekki alveg, skríður alla vega ítrekað í eina sæng með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sem allir vita að aðhyllist gjörsamlega opin landamæri.