154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[15:55]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Það er mjög mikilvægt að við stöndum á bak við Grindvíkinga á þessum svakalegu tímum í sögu bæjarins og í því óvissuástandi sem bæjarbúar hafa búið við undanfarna mánuði. Ég tel víst að það sé samhljómur um það hér á Alþingi.

Það er gefið mál að þetta mun kosta íslenskt samfélag milljarða króna, ef ekki tugi milljarða króna. Það sem mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um er fjármögnunin. Hér er verið að gefa heimild til að taka lán, allt að 30 milljarða kr. eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til viðbótar lántöku sem er búið að heimila í fjárlögum þessa árs. Í fjárlögum þessa árs er búið að heimila 200 milljarða lántöku. Það er mjög líklega til endurfjármögnunar á lánum sem þegar eru til staðar, svokallað „rollover“, fjármagna fyrri lán. En núna er viðbót, það á bara að dæla inn í hagkerfið 30 milljörðum kr. með erlendri lántöku. Þetta mun auka þenslu og eftirspurn í samfélaginu og mun koma niður á baráttunni gegn verðbólgu og líklega auka verðbólgu. Spurningin er þessi: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að taka á þeim þensluáhrifum sem þessi lántaka mun hafa? Væri ekki rétt að hækka bankaskattinn, auka veiðileyfagjaldið og láta breiðu bökin í samfélaginu taka þátt í kostnaðinum við það að styðja við bakið á Grindvíkingum? Hvað ætlar ríkisstjórn að gera til að berjast gegn verðbólgunni? Í hvaða mótvægisaðgerðir ætlar ríkisstjórnin að fara gegn þensluáhrifum þegar þessi peningur kemur inn í íslenskt samfélag? Væri ekki rétt að gera þetta með öðrum hætti, þ.e. fjármögnunina?